Sannleikurinn er sagna bestur

Umræðurnar um sölu á H.S. orku hafa verið í skrautlegum farvegi og villandi fyrir hinn almenna borgara til að geta myndað sér skoðun á málinu. Vil ég koma eftirfarandi á framfæri.


Nr.1 Stjórnendur Reykjanesbæjar eða Hitaveitu Suðurnesja höfðu ekkert um það að segja að fyrirtækinu var skipt upp í HS.Orku og HS.Veitu.


Nr. 2 Þessar ákvarðanir voru teknar af hinu háa Alþingi Íslendinga með setningu orkulaga sem gerði Hitaveitu Suðurnesja óheimilt að reka fyrirtækið í einu lagi. Hitaveitu Suðurnesja var skipt í samræmi við lög nr. 58 frá 7. júní 2008 en þau lög voru keyrð í gegnum Alþingi af ákafa af Össurri Skarphéðinssyni þáverandi iðnaðarráðherra með öflugum stuðningi Katrínar Júlíusdóttur þáverandi formanni iðnaðarnefndar.


Nr. 3 Stjórn Hitaveitu Suðurnesja breytti rekstrarumhverfi sínu skv. þessum lögum og var það tilgangur með þessum nýju orkulögum,
í fyrsta lagi til að sveitarfélögin og sveitarsjóður væru ekki að taka þátt í að byggja virkjanir eða önnur áhættusöm orkumannvirki og í öðru lagi til að aðgreina dreifikerfin frá orkuöfluninni.


Nr.4 Það sem Reykjanesbær hefur tryggt í dag er eignarhlutur uppá 70% í HS.Veitu og auðlindirnar í jörðu. Einnig er tryggt að allir Suðurnesjamenn hafa forgang á orku frá HS veitum næstu 65 árin á sanngjörnu verði.


Nr. 5 Samningurinn er til 65 ára til að tryggja að Magma Energy corp. þurfi að endurnýja allan búnað í orkuverunum í tvígang að minnsta kosti.


Reykjanesbær er búinn að tryggja það í dag að íbúar bæjarins þurfa ekki að ábyrgjast virkjanir fyrir stóriðju. Við eigum auðlindirnar og leigjum þær aðilum sem setja áhættufé upp á marga tugi milljarða í rannsóknarvinnu og boranir til að virkja á næstu árum. Orkan, sem við eigum og leigjum til HS orku er svo nýtt í okkar þágu, þ.e.a.s. til atvinnuverkefna á svæðinu. Þetta er kjarni málsins.


Ingólfur Bárðarson
Fyrrverandi stjórnarmaður í Hitaveitu Suðurnesja.