Samvinna - Samskipti - Traust

Kæru Grindvíkingar. Senn líður að kosningum og þann 29. maí næstkomandi verður gengið til sveitarstjórnakosninga. Við frambjóðendur í Samfylkingarfélaginu höfum verið að undirbúa okkur að kostgæfni síðustu 2 mánuði og m.a. höfum við heimsótt alla forstöðumenn í stofnunum bæjarins. Þessi vinna hefur að mestu leyti verið unnið af þeim frambjóðendum sem skipa fjögur efstu sætin. Það er óhætt að segja að þessar heimsóknir hafa verið einstaklega ánægjulegar og kannski það sem skiptir mestu máli mjög lærdómsríkar. Það er auðvelt að setja sig á háan hest, berja sér á brjóst og þykjast hafa vit á öllu sem varðar rekstur heils bæjarfélags en svo þegar öllu er á botninn hvolft þá veit maður harla lítið um hvernig svona stofnanir virka.

Samvinna
Við gerðum okkur það snemma ljóst að þetta væri vinna sem við yrðum að fara í einfaldlega til þess að vera þess umkomin að geta tekið þátt í umræðum um málefni bæjarins og eins til að geta komið fram með hugmyndir að umbótum. Það er alveg skýrt og í raun óumflýjanlegt að draga verður saman seglin í rekstri bæjarins til þess að rétta af þann halla sem á honum hvílir og samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir 2010 mun hann aukast. Það mun verða verkefni næstu bæjarstjórnar að takast á við þennan vanda. Það er alveg ljóst í okkar huga að til þess að góður árangur náist við að rétta þennan halla af verður að ríkja víðtæk sátt um hvernig best sé að takast á við verkefnin. Lykilatriði í því að vel til takist er líka að okkar mati samvinna, samvinna allra þeirra sem koma að stjórnun bæjarins og þeirra stofnana sem eru á hans vegum.

Ábyrgð og ákvarðanataka
Í ljósi þeirra atburðra sem átta hafa sér stað hér á landi síðustu tvö ár og þeirrar miklu umræðu sem fylgt hefur í kjölfarið um stöðu stjórnmálamanna og þeirra sem með völdin fara í þjóðfélaginu er ljóst að það er ekki létt verk að reyna að fá kjósendur til að fá trú á stjórnmál aftur. En hvað eru stjórnmál? Mönnum hefur ekki reynst auðvelt að skilgreina stjórnmál og stjórnmálafræðingar eru ekki mikið fyrir að skilgreina þetta viðfangsefni sitt. En flestir eru þó á því að stjórnmál snúist að miklu leyti um ákvarðanir og að stjórnmálamenn verði að hafa kjark, þor og hugrekki til þess að taka ákvarðanir. Þeir verði líka með öðrum orðum að standa og falla með þeim ákvörðunum sem þeir taka og vera ábyrgir gerða sinna, það hefur nú reynst mörgum íslenskum stjórnmálamanninum erfitt.

Lykilþættir góðra samskipta
En stjórnmál koma líka fyrir á ólíkum sviðum samfélagsins og ekki síst vísa þau til samskipta af einhverju tagi. Og það vita allir að til þess að samskipti manna gangi vel verða að vera til staðar þættir (dygðir) sem eru þess valdandi að þau gangi vel. Virðing er kannski það fyrsta sem upp í hugann kemur því að hún er svo þýðingarmikil í mannlegum samskiptum sama hvort sem er á milli einstaklinga og eða hópa, virðing er meðal máttarstólpa lýðræðisins. Virðingu má lýsa sem svo að hún felst í því að hafa jafnmikinn áhuga á velferð annarra og sinni eigin. Hugrekki er annar þáttur sem er mikilvægur þar sem á bak við hugrekki býr löngun til að gera eitthvað, ótti gagnvart því og þor til að taka áhættuna. Hugleysi bindur í báða skó en hugrekki hvín í skónum. Enn einn þátturinn er heiðarleiki. Heiðarleg manneskja er heil til orðs og æðis og hún villir ekki á sér heimildir, þ.e.a.s. hún þykist ekki vera annað en hún er og stendur og fellur með því sen hún segir og gerir. Sá sem fer að dæmi heiðarlegs manns bætir ekki aðeins sjálfan sig heldur heiminn allan. Það er ekki hægt að fara í gegnum þessa lykilþætti í góðum samskiptum án þess að tala um traustið. Traust er frumskilyrði mannlegra samskipta, það heldur samfélagi manna saman og traustið á milli manna er huggunin sem tengir þá saman og um leið og það dvín fer að halla undan fæti. Traustið er trúnaður á milli manna og hollusta sem gerir lífið öruggt og einlægt, veitir styrk og sjálfsöryggi. Eins og heimurinn stendur og fellur með traustinu sem menn bera hver til annars stendur einstaklingurinn og fellur með traustinu sem hann ber til sjálfs sín.

Sterkara samfélag
Stjórnmálmenn standa og falla með því trausti sem kjósendur bera til þeirra og og ef þær einstaklingar sem ætla sér að vera í fararbroddi í stjórnum bæjarfélagsins á næsta kjörtímabili tileinka sér þessar höfuðdygðir þá verður samfélagið okkar sterkara. Ekki verður það bara sterkara heldur sanna þeir fyrir kjósendum sínum og bæjarbúum öllum að þeir séu traustsins verðir og fólk öðlast aftur trú á stjórnmálin. Ég verð að segja að mér til mikillar gleði hefur mér fundist svífa yfir vötnum þessi andi sátta og samvinnu og öll framboðin virðast setja þessi mál á oddinn. Er það vel. Við í Samfylkingarfélagi Grindavíkurlistans göngum keik og hnarrreist til þessarar kosningabaráttu sem framundan er og munum á næstu dögum kynna málefnaskrá okkar og vera á ferðinni að hitta fólk.

Lifið heil

Páll Valur Björnsson