Samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum

Þann 17. október 2009 samþykkti aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) að skipaður yrði vinnuhópur sem hefði það hlutverk að kortleggja allt samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum og leggja síðan fram hugmyndir til umræðu á málþingi SSS.


Sambandið hefur gegnt mikilvægu hlutverki í gegnum tíðina þó svo skiptar skoðanir hafi verið á því hversu mikill áhrifamáttur þess hefur verið út á við. Óumdeilt er að SSS var stofnað utan um hagsmuni sveitarfélaga á Suðurnesjum og hafa mörg góð verkefni sprottið af tilurð samstarfsins. Því má spyrja hvort ástæða sé til þess að breyta núverandi fyrirkomulagi SSS? Að mínu mati er tímabært að endurskoða samstarfið í ljósi breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu og væntanlegra breytinga í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Með tilfærslu málefna fatlaðra og málefna aldraðra frá ríki til sveitarfélaga má segja að miðpunktur í starfsemi sveitarfélaga sé að færast í átt að frekari velferðarþjónustu.


Sumum hefur þótt vanta upp á nánara samstarf milli sveitarfélaga á Suðurnesjum og þá sérstaklega þegar kemur að atvinnuuppbyggingu. Atvinnuleysi er nú í hámarki á Suðurnesjum og mikill hægagangur í uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra á svæðinu. Sorglegast er að horfa upp á þá vegatálma sem lagðir hafa verið í götu sveitarfélaganna sem gerir leið þeirra enn torsóttari. Þrátt fyrir mótlætið er þó engan bilbug að finna á sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum.


Mín tilfinning er sú að sveitarfélögin á svæðinu geri sér fulla grein fyrir mikilvægi samstöðu í dag. Þessi tilfinning hefur endurspeglast í vinnu framtíðarnefndar SSS sem sér atvinnuuppbyggingu sem hornstein frekara samstarfs. Fleiri verkefni, s.s. vinna við svæðisskipulag á Suðurnesjum þarf einnig að endurspegla þá leið sem sveitarfélögin vilja fara innan SSS. Í tengslum við þá umræðu bera sameiningarmál reglulega á góma og þó svo tíðarandinn a.m.k. í smærri sveitarfélögunum sé ekki hliðhollur sameiningu sveitarfélaga á svæðinu, þá spái ég því að í framtíðinni muni þrýstingur á sveitarfélög aukast enn frekar þegar kemur að sameiningarmálum enda er það yfirlýst stefna stjórnvalda að fækka sveitarfélögum í landinu. Þá er spurning hvort sveitarfélögin vilji hafa eitthvert andsvar við slíkri stefnu? Eina færa leiðin í mínum huga er að efla samstarfið til muna svo sveitarfélögin ráði með góðu móti við þau verkefni sem þeim ber að sinna. Við höfum því gott tækifæri nú til að efla samstarfið með róttækum breytingum og getum því stigið skrefið lengra og látið reyna á vilja okkar til að þjónusta íbúana á svæðinu á sem hagkvæmastan hátt öllu svæðinu til heilla. Þessi breytta samvinnugerð gefur okkur tækifæri til að hugsa hlutina upp á nýtt. Við þurfum að komast úr hjólförum póstnúmerapólitíkur og hugsa Suðurnesin sem eitt stórt heimili.


Málþing sambandsins um þetta ágæta mál fór fram í sveitarfélaginu Garði 22. mars síðastliðinn og var ágætlega sótt. Skipst var á skoðunum og heyra mátti meirihluta hljóm sveitarfélaganna til frekara samstarfs. Á síðasta fundi sínum samþykkti framtíðarnefnd SSS að vísa tillögum nefndarinnar til stjórnar SSS. Það kemur í hlut stjórnar SSS að vinna úr þeim tillögum og móta þær endanlega fyrir aðalfund SSS á hausti komanda.


Tími orða er liðinn og tími verka brostin á.


Birgir Örn Ólafsson
forseti bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga