Sagan og uppbygging Ásbrúar

Nokkru áður en Varnarliðið ákvað að yfirgefa varnarsvæðið á Miðnesheiði og halda á brott frá landinu voru tímar niðurskurðar og uppsagna hafnir hjá Varnarliðinu, sem lauk svo með allsherjar uppsögn allra starfsmanna Varnarliðsins. Þetta voru erfiðir tímar, bæði fyrir mig persónulega og fyrir okkur öll sem mörg höfðum skilað áratuga starfi innan varnarsvæðisins. Þó að margir viti ekki af því þá var þarna starfandi blómlegt bæjarfélag varnarliðsmanna um árabil, með öllu því sem tilheyrði. Þarna var gott að starfa og lifa og kunnu bæði Íslendingar sem störfuði þar sem og varnarliðsmenn mjög vel við sig í þessu glæsilega samfélagi sem þar var.


Því var þessi ákvörðun Bandarískra yfirvalda að loka varnarstöðinni nokkuð mikið áfall fyrir okkur öll sem störfuðum þar, sem og þær verslanir og þjónustuaðila sem byggðu starfsemi sína að einhverju eða öllu leiti á þjónustu við Varnarliðið. Það er ekkert auðvelt verk að flytja heilt bæjarfélag á brott frá landinu, en með góðu fólki og ötullu starfi þeirra sem þar unnu tókst það.


Í endaðan Október árið 2006 afhentu Bandaríkjamenn svo Íslenska ríkinu þau mannvirki sem stóðu á varnarsvæðinu til eigna. Að koma að auðum götum, íbúðum, skrifstofum, hótelum, verslunum, verkstæðum, matsölu, veitingsstöðum er ekkert auðvelt verk. Það er einstakt verkefni á Íslandi að koma starfsemi og lífi í byggingar sem spanna heilt bæjarfélag. Ofan á það verkefni kom svo það átaksverkefni Reykjanesbæjar að koma til aðstoðar því góða fólki sem hafði misst æfistarf sitt innan Varnarsvæðisins og var nú atvinnulaust, í leit að nýjum tækifærum og sjálfstæði til framtíðar.


Við uppbygginguna á Ásbrú hefur Árni Sigfússon og Reykjanesbær undir hans stjórn unnið þrekvirki. En Reykjanesbær undir forystu Árna Sigfússonar hefur unnið með Þróunarfélaginu Kadeco að uppbyggingarstarfinu að Ásbrú. Við eigum skjótum viðbrögðum Árna Sigfússonar mikið að þakka, hans skýra framtíðarsýn og tillögur hans til framþróunar og uppbyggingarstarfs hafa skilað miklu til samfélagsins okkar hér í Reykjanesbæ. Með þrek, þor og vinnusemi hefur verið unnið ötult uppbyggingarstarf að Ásbrú og hefur það létt mjög áfallið af brottför Varnarliðsins og sáð neista vonar, þróttar og sjálfstæðis í hjarta okkar sem upplifðum breytinguna á varnarstöðinni. Nú eru fluttir inn íbúar á svæðið, kominn skóli og mörg fyrirtæki sprottið upp og hafið starfsemi á svæðinu. Starfið hefur skilað um 400 störfum sem af er og það þrátt fyrir efnahagsáföllin. Svæðið hefur blómstrað eins og Reykjanesbær og skapað óteljandi tækifæri fyrir okkur öll hér í Reykjanesbæ.


Segir það mikið um árangurinn að nú þakka frambjóðendur Samfylkingarinnar núverandi ríkisstjórn alla uppbygginguna. Þá söguskýringu geta þeir kannski talið sjálfum sér trú um en fáir aðrir bíta á beinið. Það er hinsvegar ánægjulegt hvað Samfylkingin er ánægð með störf bæjarstjórans og uppbygginguna á Ásbrú.


Ég sem íbúi Reykjanesbæjar kann að meta það góða starf sem unnið hefur verið í bænum, þ.m.t. að Ásbrú. Reykjanesbær er bær tækifæranna, búið er að leggja grunninn og starf hafið að mikilli uppbyggingu. Ef unnið verður áfram með alhug og stefnufestu mun það skila okkur öllum farsælli framtíð í blómstrandi bæjarfélagi.


Erlingur Bjarnason