Ríkir einræði í Reykjanesbæ?

Það er sama hvaða flokkur það er, engum er hollt að vera of lengi við völd. Nú stefnir í að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ nái HREINUM MEIRIHLUTA ÞRIÐJA KJÖRTÍMABILIÐ Í RÖÐ. Ég hef að því verulegar áhyggjur, sérstaklega þegar litið er til þess að Árni Sigfússon er þar nánast einráður og oft á tíðum virkar flokkurinn hér í bæ sem einhverskonar hallelújakór. Ef þið skoðið kynningarefnið frá þeim þá er Árni þar þungamiðjan í öllu. Talað var um það eftir hrunið að Sjálfstæðisflokkurinn væri búinn að koma sér mjög vel fyrir í embættismannakerfinu á Íslandi og mjög erfitt væri að hrófla við þeim. Hvernig haldið þið að málum sé háttað hér í bæ? Eigum við bæjarbúar þessa svæðis ekki kröfu á að hér verði rannsakaðir ýmsir hlutir, t.d. SpKef og tengsl kjörinna fulltrúa og eignarhaldsfélaga í þeirra eigu, að því máli? Þá nefni ég líka Eignarhaldsfélagið Fasteign að ógleymdri HS Orku.

HS orka, GGE og Magma

Ég vil taka það fram að ég er fylgjandi því að einkaaðilar sjái um orkuöflun og sjái um að ná sem mestu úr auðlindum okkar. Það verður þó að fara mjög varlega í það og tryggja að ekki verði gengið of nærri auðlindunum og að hagstætt verð til þegnanna sé tryggt.
Ég ætla ekki að rekja alla þessa sögu heldur einungis að velta fyrir mér hlutunum frá því þegar Magma kemur inn.

Samkvæmt heimasíðu Reykjanesbæjar segir að „öllum megi vera ljóst að  Magma er mun sterkari bakhjarl skuldabréfsins en Geysir Green Energy eftir bankahrunið og því er eðlilegt að Reykjanesbær skoði vandlega umrætt tilboð.“

Ég spyr því. Seldi ekki Reykjanesbær, GGE hlut sinn í HS orku eftir hrun bankanna? Mátti Reykjanesbæ ekki vera það ljóst að GGE stóð illa en seldi þeim samt hlut sinn? Hverjir áttu GGE? Atorka, FL-Group og fleiri. Hefur ekki komið í ljós að margir þessara aðila voru ekki traustsins verðir?
Fyrirtækið(Magma) og maðurinn með geislabauginn(Ross Beaty) sem elskar Ísland út af lífinu og vill hróður landsins sem mestan byrjar ekki vel að mínu mati.

Hann stofnar skúffufyrirtæki í Svíþjóð til að komast fram hjá íslenskri og evrópskri löggjöf. Kaupir aflandskrónur (sem er ekki ólöglegt) til að fjármagna kaupin að stórum hluta og veikir þar með gengi íslensku krónunnar. Fær kúlulán til 7 ára sem verður borgað af okkur sem notum þjónustuna með hærra orkuverði ef það þá verður borgað til baka. Sækist eftir stuðningi íslenskra lífeyrirssjóða.

Hvar er þessi erlendi gjaldeyrir og erlenda fjárfesting sem auðlindasölumenn eru að tala um? Hljómar kunnuglega en því miður mjög illa!

Af hverju hætti Ross Beaty gull/silfur greftri þegar hæst stóð og labbaði burt með vasana fulla af fé? Af hverju ætti hann ekki að gera það hér? Hvers vegna ætlar hann að vera hér til eilífðarnóns? Er það tilviljun að AGS var að störfum í þessum löndum þar sem Ross Beaty stundaði gull- og silfurgröft? Magma er ekki gamalt reynslumikið fyrirtæki á sviði jarðvarma þótt sumir hafi haldið því fram. Það var stofnað um það leyti sem bankahrunið varð hér á landi, árið 2008.

Hvernig á að útvega orkuna fyrir álverið í Helguvík? Samkvæmt Orkustofnun er Reykjanesvirkjun nú þegar ofnýtt. Sjá hér:

Hvað gerist ef auðlindirnar bregðast? Á Magma skaðabótarétt? Hvað ef Magma gengur of nærri auðlindunum? Hvernig hljómar samningurinn á milli land/auðlindaeigenda og Magma? Menn tala um að þetta sé einungis nýtingarréttur á auðlindum en ekki auðlindirnar sjálfar. Hvað þýðir það að einkaskúffufyrirtæki úti í heimi hafi hann í 130 ár? (2x65 ár eins og Reykjanesbær hefur þegar gefið víljayfirlýsingu fyrir). Ef við lítum 130 ár aftur í tímann, hvað hefur gerst á þeim tíma? Það er næstum allt í nútímaþjóðfélagi nema kannski vændi. Það er oft gaman og gagnlegt að skoða texta okkar góðu laga- og textahöfunda og sjá hvernig þeir hafa séð inn í framtíðina.


Fylgd


Komdu, litli ljúfur, labbi, pabba stúfur,
látum draumsins dúfur dvelja inni um sinn.
heiður er himinninn.
- Blærinn faðmar bæinn, býður út í daginn.
Komdu, kalli minn.
Glitrar grund og vangur, glóir sund og drangur.
Litli ferðalangur láttu vakna nú
þína tryggð og trú.
- Lind í lautu streymir, lyng á heiði dreymir,
þetta land átt þú.
Hér bjó afi og amma eins og pabbi og mamma.
Eina ævi og skamma eignast hver um sig.
stundum þröngan stig.
- En þú átt að muna alla tilveruna,
að þetta land á þig.
Ef að illar vættir inn um myrkragættir
bjóða svikasættir svo sem löngum ber
við í heimi hér,
- þá er ei þörf að velja: þú mátt aldrei selja
það úr hendi þér.
Göngum langar leiðir, landið faðminn breiðir.
Allar götur greiðir gamla landið mitt,
sýnir hjarta sitt.
- Mundu, mömmu ljúfur, mundu, pabba stúfur,
að þetta er landið þitt.


Guðmundur Böðvarsson

Við Suðurnesjamenn nutum hagstæðasta raforkuverðs á landinu. Þetta er liðin tíð. Efitr einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja borgum við hæsta verðið.


Hvað hefur breyst hjá Sjálfstæðisflokknum frá því fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar þegar Böðvar Jónsson svaraði spurningu Víkurfrétta um Hitaveitu Suðurnesja?


Var það ekki álit Árna Sigfússonar og Kristjáns Þórs Júlíussonar, sem fóru fyrir nefnd fyrir Sjálfstæðisflokkinn hvort flokkurinn hyggðist styðja umsókn inn í Evrópubandalagið, að það væri ekki fýsilegt vegna áhættu um að útlendingar gætu þá komist yfir auðlindir okkar? Hver er munurinn á því og sölunni á HS orku?

Hvað hefur þá Sjálfstæðisflokkurinn gert vel?

Umhverfismál
Þar hefur verið lyft grettistaki á undanförnum árum og ásýnd bæjarins hefur lagast mikið. Það ætti samt að hafa verið hægt að gera eitthvað fyrir allt það fjármagn sem fékkst fyrir að selja allar eignir bæjarins. Og af hverju er það alltaf Nesprýði sem vinnur allt fyrir bæjarfélagið?

Atvinnumál
Flokkurinn og Árni stæra sig af að hafa unnið vel í þessum málaflokki. Það kann að vera. Hitt er þó staðreynd að hér er mesta atvinnuleysi á landinu. Að mínu mati ber þar ríkisstjórnin mikla ábyrgð og með ólíkindum hvernig hún hefur beinlínis staðið gegn atvinnuuppbyggingu hér á svæðinu, má þar nefna flutning landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvöll, gagnaver Verne(set sjálfur spurnigarmerki við þessa framkvæmd vegna aðkomu Björgólfs Thors), ECA verkefnið og heilsusjúkrahús.

Ég spyr hinsvegar hvort Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ hafi farið of geyst á góðæristímabilinu í því að laða hingað fólk með tilheyrandi fjárfestingu í gatnagerð ofl? Í Reykjanesbæ búa nú um 14 þúsund íbúar og u.þ.b. 1.600 atvinnulausir. Fyrir 10 árum bjuggu hér um 10 þúsud íbúar. Hvað væru margir atvinnulausir hér ef fjölgunin hefði verið helmingi minni? Það hafa margir fallið flatt á því að vaxa of hratt.

Getur verið að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lagt af stað með álver í Helguvík án þess að hafa unnið nógu vel undirbúninginn? Ég minni á þrýstingin sem var og er um atvinnu. Hér átti að koma magnesíum verksmiðja, stálpípuverksmiðja, kísilvinnsla o.fl. Hér kom fyrirtæki, kanadískt, sem hét Thermo Plús og var spútnik fyrirtæki margra bæjarstjórnamanna en það er stutt frá því að segja að það fór á hausinn og margir töpuðu verulegu fé á því ævíntýrinu. Er það kaldur raunveruleikinn að Sjálfstæðisflokkurinn sé búinn að koma sér í þá stöðu að hann ætli að keyra álverið í Helguvík í gegn, SAMA HVAÐ ÞAÐ KOSTAR, til að halda haus?
 
Fjölskyldumál

Mín tilfinning er sú að hér sé þessi málaflokkur í þokkalegu lagi. Hinsvegar hef ég ekki mikinn samanburð í því að upplifa önnur sveitarfélög því ég hef nánast eingöngu búið í Reykjanesbæ. Ég hef þó áhyggjur af árangri nemenda svæðisins á samræmdum prófum en ég heyrði í einhverjum fréttatímanum um daginn hann hafi verið sá lakasti hér af öllu landinu. Einnig að hér eru framdir flestir glæpir samkæmt nýlegri könnun.

Efnahagsmál
Árið 2002 bjuggu um 11.000 íbúar í Reykjanesbæ og skuldir bæjarins voru um einn milljarður. Það þýðir að hver bæjarbúi skuldaði rúmar 90 þúsund krónur og bærinn átti allar skólabyggingar, leikskólabyggingar, íþróttamannavirkin, Stapann og fleira og fleira. Árið er 2010 er íbúafjöldinn um 14.000 manns, HREINN pólitískur meirihluti hefur verið við völd í átta ár. Það er búið að selja allar fasteignirnar, og skuldirnar eru yfir 30 miljarðar, sem mér skilst að sé varlega áætlað miðað við allar bókhaldsbrellurnar sem hafa verið notaðar til að fela skuldirnar. Þetta þýðir að hver einasti íbúi Reykjanesbæjar skuldar rúmlega 2,1 milljón, bærinn á engar fasteignir og er á athugunarlista eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Meira að segja stolt Suðurnesjamanna, Hitaveitan, er farin. Að mínu viti er það út af fyrir sig í lagi en fékkst gott verð fyrir hana? Var eðlilega staðið að sölunni? Er samningurinn góður fyrir bæjarbúa?

Hvað á að kjósa? Ég hef ekki enn ákveðið mig en veit þó að það verður ekki Sjálfstæðisflokkurinn því ég tel að það sé kominn tími á endurskoðun verka hans og að aðrir eigi að fá að spreyta sig. Þar eru einna helst inn í myndinni hjá mér Framsókn, sem skipar ungu efnilegu fólki eða Samfylking sem hefur mjög breiðan og öflugan hóp frambjóðenda. Samfylkingarmaður er ég þó alls ekki og styð ekki stefnu hans í landspólitík. Eins og ég sagði í upphafi greinarinnar tel ég rannsóknar þörf á ýmsum málum. Það verður ekki gert, svo hlutlaust sé, af Sjálfstæðisflokknum því því hvernig getur hann rannsakað sjálfan sig?

Ég vil benda fólki á bloggsíðu Láru Hönnu Einarsdóttur ef það vill kynna sér söguna á bak við söluna á HS orku. Hún hefur verið mjög iðin við að fjalla um þetta mál og greinar hennar eru vel unnar og rökstuddar.

Að lokum, ábyrgð kjósenda er mikil og þegar á öllu er á botninn hvolft þá eru það þeir sem kjósa yfir sig það sem þeir fá og geta því líka sjálfum sér um kennt ef þeir eru ekki sáttir. Ég hvet alla til að mæta á kjörstað á laugardaginn og nýta atkvæðisrétt sinn, hann er mikilvægur hverjum manni og fékkst ekki ókeypis.

Kær kveðja,

Vilmundur Friðriksson.
íbúi í Reykjanesbæ.