Reykjanesbær til fyrirmyndar

Á undanförnum árum hefur markvisst verið unnið að uppbyggingu á íþrótta- og tómstundarmálum í Reykjanesbæ. Lögð hefur verið áhersla á að efla bæði afreksíþróttir og barna- og unglingastarf. Einn þeirra þátta sem tekin hefur upp eru Hvatagreiðslur. En það eru greiðslu sem börn og unglingar á aldrinum 6-18 ára og taka þátt í viðurkenndu íþrótta- og tómstundarstarfi eiga rétt á. Hvatargreiðslur eru styrkur frá Reykjanesbæ sem er hugsaðar til að auðvelda öllum að taka þátt í heilbrigðu barna- og unglingastarfi. Þær nema nú 7000 krónum á hvert barn. Sjálfstæðisflokkurinn vill hækka þessar greiðslur til að auðvelda enn frekar börnum og unglingum að stunda íþróttir og aðrar tómstundir. Hafi einhvern tímann verið þörf á að börn og unglingar finni farveg í íþróttum og tómstundum er það þegar ástand í atvinnumálum er með þeim hætti sem nú er.


Reykjanesbær hefur alla tíð stutt íþróttafélögin vel og dyggilega með þátttöku í launum þjálfara, rekstrarsamningum og öðrum greiðslum. Af þessu má sjá að Reykjanesbær gerir vel hvað þetta varðar og ætlar að gera enn betur ef við Sjálfstæðismenn fáum einhverju um það ráðið. Unnið hefur verið ötullega að uppbyggingu íþróttamannvirkja og bæta þau sem fyrir eru. Af mörgu er að taka og ætla ég að tíunda nokkur.


Undir styrkri stjórn Sjálfstæðisflokksins hefur verið byggð stórglæsileg 50m innisundlaug sem stórbættir alla aðstöðu sundfólks ekki síst okkar glæsilega afreksfólks. Sundfólk í Reykjanesbæ er með því allra fremsta á landinu og verður það áfram. Nú eru fimm sundlaugar starfræktar í Reykjanesbæ.


Fimleikadeildin fékk fyrir skömmu stórglæsilega aðstöðu afhenta í húsnæði sem áður hýsti Íþróttaakademíuna. Sérlega glæsilegt hús og er aðstaðan eins og hún gerist best. Þarna eru hátt í fjögur hundruð börn og unglingar að stunda fimleika og ljóst að þessi íþrótt mun blómstra hér í bæ og verða okkur til mikils sóma.


Aðstaða körfuknattleiksfólks hefur verið stórbætt bæði í Keflavík og Njarðvík og nú liggur fyrir að setja parket á gólfið í B-sal íþróttahússins við Sunnubraut. Í Reykjanesbæ eru 9 íþróttasalir til æfinga á inniíþróttum . Aðstaða knattspyrnunnar í bænum hefur verið stórbætt og er verið að vinna enn frekar í þeim málum. Njarðvík hefur fengið nýtt svæði fyrir æfingar og keppni. Þar er verið að byggja góða stúku sem mun stórbæta alla aðstöðu fyrir áhorfendur og þegar framkvæmdum verður lokið verður þarna völlur sem sómi er að.


Nú er unnið að framkvæmdum við Keflavíkurvöll. Þar hefur verið skipt um gras, hitalagnir og vökvunarkefi sett í hann. Keflavíkurvöllur verður einn sá besti á landinu ef að líkum lætur. Nú í sumar munu klárast framkvæmdir við nýtt félagsheimili Keflavíkur sem byggt er við Íþróttahúsið við Sunnubraut.


Fjöldi leiksvæða í Reykjanesbæ er eins og það gerist best á landinu. Reykjanesbær var fyrstur til að setja upphitaða gervigrasvelli við skólana og eru þeir fimm talsins. Þrír NBA útikörfuboltavellir eru komnir við skólana og tveir í farvatninu. Eru þessir vellir eins og best gerist utandyra. Svona má lengi telja. Auk þessa er unnið mikið starf að hlúa að hinum ýmsu tómstundum sem stundaðar eru í bæjarfélaginu.


Af þessu má sjá að Reykjanesbær framkvæmir æskunni til heilla. Í Reykjanesbæ er mikið af afreksfólki í einstaklingsíþróttum og í flokkaíþróttum erum við í fremstu röð. Árangur næst fyrst og fremst við toppaðstæður og markvissum vinnubrögðum. Ekki má gleyma forvarnagildi Íþrótta og tómstunda fyrir æskuna því lengi býr af fyrstu gerð. Íþróttir er besta forvörnin gagnvart vímuefnum og ekki síst aukinni offitu barna og unglinga. Í okkar góða bæjarfélagi ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.


Rúnar Arnarson
Frambjóðandi á D-lista sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ