Reykjanesbær - bær með bjarta framtíð og sterka framtíðarsýn

Meirihluti sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ undir forystu Árna Sigfússonar, bæjarstjóra, hefur barist fyrir því að skapa vel launuð störf fyrir íbúa Reykjanesbæjar. Álver, gagnaver og sjúkrahús eru allt verkefni sem við þekkjum vel.


Álverið í Helguvík er stærsta og eitt mikilvægasta verkefnið. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ hefur lagt ríka áherslu á framgang verkefnisins og oft mætt óskiljanlegri andstöðu frá fulltrúum annarra flokka sem beinlínis hafa það á stefnuskrá sinni að standa gegn þessari mikilvægu uppbyggingu fyrir atvinnulíf okkar hér á svæðinu og fyrir efnahagslíf landsins.


Tengd störf munu blása lífi í verktakafyrirtæki
Tengd störf sem verða til við stórframkvæmdir eins og Helgvíkurverkefnið eru ekki síður mikilvæg. Ljóst er að framkvæmdirnar munu blása lífi í starfsemi iðn- og þjónustufyrirtækja. En mörg þessara fyrirtækja hafa orðið fyrir miklum samdrætti á undanförnum misserum. Rafrænt gagnaver á Ásbrú er annað verkefni sem mun skapa 100 störf þegar full starfsemi er hafin og 200 störf á framkvæmdatímanum.


Heilsu- og ferðaþjónustubærinn
Heilsutengd ferðaþjónusta er einn verðmætasti þáttur ferðaþjónustunnar. Uppbygging nýs sjúkrahúss á nýsköpunarsvæðinu Ásbrú er þegar hafin. Sjúkrahúsið mun skapa 280 bein og tengd störf. Í Reykjanesbæ eru eru þegar fyrir hendi sterkar undirstöður í ferðaþjónustu og mun þessi mikilvæga þróun í heilsutengdri ferðaþjónustu eingöngu styrkja rekstrargrundvöll okkar mikilvægu segla í ferðaþjónustu sem eru Víkingaheimar og Orkuverið jörð auk t.d. góðra hótela og veitingastaða. Áhersla á umhverfismál og fegrun bæjarins okkar mun hvetja ferðamenn til að staldra lengur við og njóta þess sem við höfum að bjóða.


Framtíðarsýn sem byggir á atvinnu

Atvinnnumálin gegna nú sem áður lykilhlutverki í framtíðarsýn XD fyrir Reykjanesbæ til ársins 2014. Enda er atvinnan undirstaða þeirrar velferðar sem við byggjum á í samfélagi þar sem manngildið er ávalt í fyrirrúmi.


Við sem skipum framboðslista XD munum halda áfram undir forystu Árna Sigfússonar að berjast fyrir góðum og vel launuðum störfum fyrir íbúa Reykjabæjar. Ég skora á þig að sýna hug þinn til atvinnumála í verki og kjósa atvinnu með því að setja X við D á laugardaginn.


Magnea Guðmundsdóttir.
Greinarhöfundur skipar 4.sæti á lista XD í Reykjanesbæ.