Ræðum það sem skiptir máli

Hún er vægast sagt skrýtin sú pólitíska umræða sem meirihluti sjálfstæðsimanna býður bæjarbúum upp á nú í aðdraganda kosninga. Umræða sem virðist fyrst og fremst ganga út á að ræða helst ekki neitt af því sem efst er á baugi og skiptir máli . Umræða um hið sjálfsagða, og það sem allir eru sammmála um. Þeir segja það sem þeir telja að fólkið vilji heyra.


Það er ljóst að úttekt sú sem fram fór um aðild Reykjanesbæjar að Fasteign var ekki sú skemmtilesning sem meirihlutinn vill vera láta. Þar komu fram fjölmörg atriði sem renna stoðum undir þá skoðun margra að vera okkar í Fasteign sé okkur ekki hagkvæm. Og langt í frá. Á því þarf að finna lausnir. Það mál þarf að ræða.


Mélefni Hitaveitu Suðurnesja er eitt þeirra mála þar sem meirihlutinn tók sína eigin ákvörðun í andstöðu við vilja meirihluta íbúanna. Ákvörðun sem einnig var þvert ofan í þau loforð sem þeir höfðu áður gefið. Sölu djásnsins, og sú ákvörðun að nota féð til að fela óreiðuna í rekstri bæjarins, er mál sem þarf að ræða.


Meirihlutinn hefur gefið sig út fyrir að hafa byggt hér upp barnvænan bæ. Að hér sé gott að búa með börn á leikskólaaldri. Starfsemi leikskólanna hefur lent undir niðurskurðarhnífnum, og erfitt fyrir þá foreldra sem þjónustunnar njóta sjá gæðin þar. Vonbrigði barnafjölskyldna, aukinum byrðum í boði Sjálfstæðisflokksins og flóttan úr bænum þarf að ræða.


Stjórnsýsluathafnir bæjarins virðast einnig vera málefni sem ekki er yfir vafa hafin. Málefni svonefnds Motocrossvæðis, Nikkelsvæðis, og fleiri tengd mál eru eftir því sem hermt er ekki hafin yfir allan vafa. Þau mál þarf að ræða, svo öllum misskilningi sé eytt.


Á sama tíma og kennurum og nemendum skólanna er bannað að svo mikið sem gjóa augunum að ljósritunarvélunum, sendir bærinn út tugi litprentaðara bæklinga um hvaðeina sem þeim dettur í hug að nú eigi erindi til bæjarbúa. Kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins á kostnað bæjarbúa þarf að ræða.


Stefna meirihlutans að ýta hér undir fólksfjölgun, án þess að atvinnutækifæri hafi áður verið sköpuð hefur haft sínar afleiðingar. Ímynd bæjarins er í molum. Atvinnuleysi það mesta á landinu og skuldir bæjarins yfirþyrmandi . Ytra byrðið hefur sýnt sig að vera án innihalds. Það þyrfti líka ræða.


Er ekki komin tími til að fara að ræða það sem skiptir máli. Hvernig við ætlum að haga málum næstu fjögur ár, og hver árangur síðustu fjögurra ára hefur verið. Hætta að láta eins vandamálin séu ekki til, eða þau leysist af sjálfu sér, sé staðreyndunum stungið undir stól. Hætta að láta eins og pempíur rétta liðsins, og taka ábyrgð. Fara að ræða það sem skiptir máli.


Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson