Ögmundur í kvöld

Frá kl. 18:00 í dag verða grillaðar pulsur fyrir gesti og gangandi við kosningaskrifstofu VG að Hafnargötu 36a í Reykjanesbæ. Ögmundur Jónasson kemur svo á kvöldfund klukkan átta og ræðir pólitíkina ásamt frambjóðendum VG. Kosningar til sveitarstjórna eru þær fyrstu eftir efnahagshrun og mikilvægt að þær feli í sér uppgjör við fortíðina og þá hugmyndafræði sem leiddi okkur í þær ógöngur sem samfélagið nú er í. Í Reynd eru átökin sem fjárþurr samfélög, jafnt við sem grikkir, barátta fólks gegn fjármagni en ekki barátta á milli þjóða eins og stundum má ætla af umræðunni. Hvað hefur bláfátækur almenningur í Grikklandi af sér gert til þess að bera þær byrðar sem á hann verður lagður? Grikkir kusu yfir sig spillt stjórnvöld sem létu viðgangast spillt kerfi sem falsaði tölur um þjóðarbúsakap og þegar upp komst fór allt í kaldakol líka hjá þeim almenningi sem hafði gert það eitt að kjósa yfir sig spillt stjórnvöld. Margt bendir til þess að hér sé hið sama uppi á teningnum. Allir vita að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks ganga nú sumir hverjir út úr bæjarstjórn með milljarða kúlulán á eignarhaldsfélögum sem áttu þátt í því að fella Sparisjóð Keflavíkur.

Halli á reglubundinni starfsemi bæjarsjóðs samkvæmt ársreikningum Reykjanesbæjar var á síðasta kjörtímabili tæpir 3 milljarðar. Meirihlutinn kýs að tala ekki mikið um þessa staðreynd sem skýrir hversvegna hækka þarf mat hjá gamla fólkinu á Nesvöllum og skerða frístundaþjónustuna hjá börnunum. Þess í stað er myndin fegruð og sala á hlut sveitarfélagsins í Hitaveitu Suðurnesja talin til tekna á þessu tímabili líkt og sala skóla, sundlauga, íþróttamannvirkja o.fl. var talin til tekna á kjörtímabilinu þar á undan. Meirihlutinn fer þarna hættulegar leiðir og rekstrarhalli af reglubundinni starfsemi bæjarsjóðs er eitthvað sem kjósendur á endanum bera ábyrgð á, rétt eins og grikkirnir, þó þeir geri ekki annað af sér en að kjósa yfir sig útverði fjármagnseigenda.

Vinstrigræn í Reykjanesbæ hvetja til góðrar mætingar á kvöldfund með Ögmundi.