Mótum framtíðina

Á undanförnum áratug hefur athygli manna innan Evrópuráðsins svo og ýmissa fjölþjóðlegra samtaka beinst í auknum mæli að málefnum fatlaðs fólks. Á þeim vettvangi er unnið að framkvæmdaráætlun sem tók gildi 2006 og gildir til 2015. Áætlunin hvetur til aukinna réttinda fatlaðs fólks og fullrar þátttöku þess í samfélaginu og með því móti megi auka lífsgæði þess. Þar er m.a. lögð áhersla á nýja sýn á málefni fatlaðra.

Í stuttu máli sagt er þessi hugmyndafræði byggð á því að auka sjálfsákvörðunarrétt þeirra sem búa við fötlun og virkari þátttöku þeirra í samfélaginu.Stefna stjórnvalda og lögin kveða á um „jafnrétti“ fatlaðs fólks og rétt þess til „sambærilegra lífskjara“ . Einnig er talað um „skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi“. Þar er alveg skýrt tekið fram að fatlaðir eigi kost á búsetu í samræmi við þarfir sínar og óskir eftir því sem kostur er. Þá er tala um að þeir sem búi við fötlun skuli eiga kost á því að eiga heimili með sambærilegum hætti og aðrir þegnar og búa þannig við sömu friðhelgi hvað einkalíf varðar. Íslensk velferðarstefna og velferðarkerfi byggir á svipaðri hugmyndafræði og á hinum Norðurlöndunum. Hér á landi hafa þessi mál þó þróast með örum hætti en nágrannalöndum okkar. Ísland hefur þannig varið hlutfallslega mun minna fjármagni til fatlaðra en hin Norðurlöndin sem við berum okkur þó saman við. Þannig má segja að við Íslendingar séum óspör á metnaðarfull lagamarkmið en fram að þessu hafa leiðirnar af markmiðunum verið ófullnægjandi.

Á síðasta ári, undirritaði ríkisstjórn Íslands og Sambandi ísl. sveitarfélaga viljayfirlýsingu um tilfærslu félagsþjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga sem sveitarfélögin yfirtaka 2011. Helstu markmið með flutningi þjónustunnar er að bæta þjónustu við notendur. Þannig verður verkaskipting ríkis og sveitarfélaga einfaldari og skýrari. Við þessar breytingar skapast tækifæri til að breyta stofnanamiðaðri þjónustu yfir í notendamiðaða og notendastýrða þjónustu. Tryggja þarf tekjustofna þannig að málaflokkurinn styrkist. Til að standa undir kostnaði vegna tilfærslunnar verða tekjur sveitarfélaganna auknar með breytingum á lögum um tekjustofna sveitarfélaga.


Stjórnvöld hafa hundsað rétt fatlaðs fólks alltof lengi og þannig brotið þau lög gróflega sem sett voru til að tryggja grunnréttindi fatlaðra. Sem móðir fatlaðrar dóttur sem er 20 ára hef ég öðlast mikla og dýrmæta reynslu á málefnum fatlaðra. Ég hef mætt mörgum hindrunum sem oftast má rekja til vanþekkingar á þessu sviði.


Mæta þarf þeim einstaklingum sem komir eru á biðlista varðandi búsetuúrræði með byggingu sambýlis á Suðurnesjum. Þörfin er mikil en úttekt sem gerð var af samstarfshóp um málefni fatlaðra sýnir að á næstu árum skapist þörf fyrir sérhæfð búsetuúrræði fyrir 4-6 einstaklinga í Garði, Sandgerði og Vogum. Þjónusta við fatlað fólk er atvinnuskapandi og því liggja mikilvæg tækifæri í atvinnuuppbyggingu í þeim geira. Bygging sambýlis í Garðinum er eitt af okkar markmiðum á kjörtímabilinu. Við viljum að allir íbúar Garðsins geti búið í sínum heimabæ hvort sem þeir eru fatlaðir,aldraðir eða sjúkir. Það á að vera metnaður okkar að pláss sé fyrir alla í samfélaginu.Garðbúar sýnum metnað okkar í verki, sláum tvær flugur í einu höggi með byggingu sambýlis í Garðinum. Með því sköpum við störf og byggjum heimili fyrir fatlaða og ryðjum þannig hindrunum úr vegi.

Kolfinna S Magnúsdóttir
Skipar 4. sætið á lista sjálfstæðismanna og óháðra í Garði