Mikil er skömm þeirra

Sigur er unninn. Við höfum nú eignast það sem við áttum áður, og þannig tryggt það sem við höfðum áður. Nema við ráðum ekki lengur yfir því. Það hefur verið leigt fyrir aura til útlendinga , sem þegar eru byrjaðir að græða á því krónur. Og við fjármögnum kaupin fyrir þá.


Einhvern veginn svona hljómar nú vörn þeirra útrásarvíkinga sem fremstir fóru í sölunni á Hitaveitu Suðurnesja. Menn sem áður settu einkafyrirtæki á hausinn, og er nú að takast hið sama með bæinn okkar. Þeir stjórna nú bænum okkar, og vilja fá að gera það áfram.


Rekstur HS Orku hefur ekkert breyst frá einkavinavæðingunni. Við getum nú miðað við fyrirliggjandi rekstur , reiknað með að tekjur bæjarins af auðlindagjaldi verði á bilinu 30- 50 milljónir króna hið mesta. Já, það er óhætt að segja að það var nú mikilsvirði að það tókst að tryggja eignarhald á auðlind, sem við áttum áður.


Afrakstur síðasta árs HS Orku er 500 milljónir króna í hagnað. Hefðum við ekki selt má reikna með að arður okkar í Hitaveitu Suðurnesja hefði getað numið um það bil 220 milljónum.Það jafngildir þvi að meðaltali 5 ára auðlindagjaldi. Hagnaður á fyrsta ársfjórðungi þessa árs er sagður 1200 milljónir.


Fyrstu skilaboð hins nýja meirihlutaeiganda í Kastljósi í gær voru skýr. Rafmagnsverð er of lágt á Íslandi. Við vitum nú hvað býður okkar. Við vitum líka hverjum ber að þakka það. Meirihluta sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar undir forystu Árna Sigfússonr. Sá er minnisvarði þeirra.

Mikil er skömm þeirra.


Með kveðju
Hannes Friðriksson