Mig vantar sjúkrabíl-STRAX!

Hver mínúta skiptir máli þegar slys, alvarleg veikindi eða bruna ber að höndum. Því er mikilvægt fyrir samfélagið að viðbrögð og þekking slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sé eins og best verður á kosið. Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn verða að eiga möguleika á því að þjóna íbúum sem og öðrum skjólstæðingum á árangursríkan hátt. Til að árangur náist verða þeir að hafa möguleika á að starfa sem liðsheild, viðhalda starfsþróun og öryggi í starfsumhverfinu. Nú á niðurskurðartímum er mikilvægt að tryggja að niðurskurður komi ekki niður á grunnþjónustu Brunavarna Suðurnesja. Heilbrigðisráðuneytið hefur skorið fjárframlög niður um 7% til sjúkraflutninga BS.


Aukið álag á sjúkraflutningsmenn
Framlag frá ríkinu í sjúkraflutningum var um 50% af heildarkostnaði árið 1988 en er í dag um 31%. Hlutur sveitarfélaganna hefur því aukist jafnt og þétt með árunum. Mikilvægt er að fram fari leiðrétting á þessu. Framlög frá ríkinu er ekki í takt við fjölda flutninga sem helst í hendur við fjölgun íbúa Reykjanesbæjar. Nú þegar niðurskurðarhnífnum hefur verið beitt grimmilega á HSS, mæðir enn meira á sjúkraflutningamönnum. Þeir koma til með að fara mun fleiri ferðir með sjúklinga til Reykjavíkur. Auk þess sem væntanleg stóriðja í Helguvík mun gera kröfu um aukinn viðbúnað hjá BS.

Færri starfsmenn-skert öryggi
Starfsmenn BS starfa eftir eftirfarandi slagorði: verndum líf, umhverfi og eignir. Nauðsynlegt er að tryggja þá grunnþjónustu sem BS er að veita. Það er okkur öllum mikilvægt að þjónusta þeirra skerðist ekki. Sem dæmi má nefna að á Akureyri starfa sjö starfsmenn á vakt en einungis fjórir hjá BS. Ef sá möguleiki kemur upp á fækka þarf starfsmönnum á vakt til að lækka rekstarkostnað BS, getur það haft í för með sér að sá tími sem tekur starfsmenn BS að svara útkalli eykst. Eins og fram hefur komið þá skiptir hver mínúta máli.

Tryggjum öryggi íbúa og stöndum vörð um grunnþjónustu BS. X-B!


Eyrún Jana Sigurðardóttir, 3. sæti Framsóknar í Reykjanesbæ.