Menning og Magma í kvöld

Í kvöld klukkan 20:00 munu rithöfundarnir Einar Már Guðmundsson og Sigurjón Vikarsson að lesa úr verkum sínum í kosningasmiðstöð VG að Hafnargötu 36a, Reykjanesbæ. Jafnframt mun Stjáni Meik les vel valin ljóð.

Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi VG og stjórnarmaður í OR, mun fjalla um auðlindamálin eins og þau blasa við honum og þær hættur sem nú liggja í loftinu.

Lausafárþurrð kreppunnar virðist geta leitt til þess að þjóðinni verði gert að afsala sér arði af auðlindum sínum áratugum saman eins og þegar hefur gerst með yfirtöku Magma á hlut útrásarloftbólunnar GGE í HS-orku. Haldi þessi þróun áfram verða þjóðinni allar bjargir bannaðar í bráð og lengd. Framboð VG í Reykjanesbæ vill leita allra leiða til þess að vinda ofan af þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir og mun láta kanna lögmæti þeirra gjörninga sem leitt hafa til þess að opinberir aðilar hafa misst yfirráð yfir Hitaveitu Suðurnesja sem löngum hefur verið hornsteinn í atvinnulífi og bakhjarl okkar Suðurnesjamanna, fáist til þess stuðningur kjósenda. Finnist til þess færar leiðir mun VG í Reykjanesbæ láta reyna á nýlega gjörninga fyrir dómi með það að markmiði að ná forræði á auðlindum úr klóm erlends auðvalds aftur til Suðurnesjamanna.

Meira um Magma málin á mögnuðum menningarfundi VG í Reykjanesbæ í kvöld kl. 20:00.