Menning er málið

Í stefnu Reykjanesbæjar í menningarmálum segir m.a að Reykjanesbær skuli verða þekktur sem lista og menningarbær. Sú er reyndar raunin og leyfi ég mér að fullyrða að Reykjanesbær hafi getið sér það orð á undanförnum árum með þátttöku hinna ýmsu menningarhópa, listamanna, menningarráði og kraftmiklu fólki sem starfar á menningarsviðinu.

Þeir fjölmörgu lista og menningarhópar sem hér starfa hafa unnið mikið og þarft verk í þágu bæjarins og eiga heiður skilinn fyrir fornfúst og áhugavert starf. Það fólk sem starfar að þessum málum gerir það af áhuga og dugnaði og það sem meira er að öll þessi vinna er unnin í sjálfboðavinnu. Því er afar nauðsýnlegt að styðja vel við bakið á því starfi sem unnið er og þar koma menningarsamningarnir sterkir inn. Menningarsamningar hafa verið gerðir við hin ýmsu félög og hópa og felast m.a í því að viðkomandi hópur sinnir þátttöku í hinum ýmsu viðburðum tengdum bæjarfélaginu og fær í staðinn fjárframlög til að efla starfsemina innan hópsins. Ég sé t.d ekki þær hátíðir sem hér eru haldnar ár hvert ná þeirri hæð sem raun er ef ekki kæmi til samstarf þessara aðila.

Eins og við vitum þá er því alls ekki þannig farið að öll börn stundi íþróttir. Sumir hafa áhuga á listum og skapandi starfi og því er afar mikilvægt að halda úti starfsemi þessa hópa og auka jafnvel samstarfið þannig að það nái inn í grunnskólana, leikskólana og jafnvel inn í starf eldri borgara. Þá vil ég sjá hvatagreiðslur hækkaðar til að auðvelda megi þátttöku barna og unglinga í lista-og menningarmálum.

Listasafn Reykjanesbæjar hefur heldur betur sannað gildi sitt og sýningar þar hlotið umtalsverða athygli . Þá er afar eftirsótt af listamönnum að fá að sýna í sýningarsal listasafns Duushúsa og komast mun færri að en vilja. Ég vil sjá Duushúsin fullkláruð sem fyrst og sé fyrir mér að þarna verði menningar-og listamiðstöð okkar Reyknesbæinga.

Fyrir skemmstu lagði menningarráð fram tillögu þess efnis að keypt yrði varanlegt húsnæði undir byggðasafnið sem hingað til hefur verið með geymslur á leigu. Þetta var samþykkt í bæjarstjórn og Rammahúsið keypt. Vissulega skref fram á við, þar sem ég tel að peningunum sé betur varið í kaup á húsnæði en leigu.

Ég hef hér stiklað á stóru um menningarmál bæjarins enda eru þau mál mér afar hugleikin. Ég tel eins og fram hefur komið afar mikilvægt að halda áfram stuðningi við þá lista og menningarhópa sem hér eru, uppbyggingu safnanna, og svo mætti lengi telja.

Til að áfram megi stuðla að uppbyggingu listar og menningar þá þarf öflugt og áhugasamt fólk til að stjórna og forgangraða verkefnum hér í bænum.


Guðný Kristjánsdóttir.


Undirrituð er bæjarfulltri , á sæti í menningarráði Reykjanesbæjar og skipar 2. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ.