Magma og fjármál bæjarsjóðs

D-listinn í Reykjanesbæ fjármagnaði glamúrinn og fjörið á fyrra kjörtímabili Árna Sigfússonar (2002-2006) með því að selja skólana, sundlaugarnar, íþróttahúsin og önnur mannvirki sem kynslóðirnar á undan höfðu byggt upp. Á seinna kjörtímabili Árna Sigfússonar var einnig halli á reglubundinni starfsemi bæjarsjóðs,  skv. ársreikningum Reykjanesbæjar, tæpir 3 milljarðar – 2.974 milljónir króna – sem samsvarar 745 milljónum á ári.

Umframreksturinn á seinna kjörtímabilinu var fjármagnaður með sölu á Hitaveitu Suðurnesja. Hinn nýji eigandi Magma er sænskt skúffufyrirtæki í eigu Kanadísks fyrirtækis sem var stofnað árið 2008 að því er virðist sérstaklega til þess að kaupa HS orku því fátt annað markvert er um fyrirtækið að finna. Magma keypti aflandskrónur fyrir 20 milljónir $ til kaupanna og tók þannig stöðu gegn almenningi á Íslandi.

Ballið er búið og eignirnar seldar. Árið 2007 er löngu liðið og nýtt og fallegt ár 2010 runnið upp. Höfnum meiru af því sama og tryggjum vinstristjórn á næsta kjörtímabili svo samfélagslegar áherslur, réttlæti og jafnrétti verði leiðarljós í viðreisnarskeiðinu sem framundan er. Þitt atkvæði skiptir máli.

Gunnar Marel Eggertsson,

oddviti VG í Reykjanesbæ.