Litla gula hænan

Nú styttist óðum í sveitarstjórnarkosningar og þá gerist nokkuð sem er svipað og stundum kemur fyrir á úrslitamínútum í íþróttakappleikjum. Leikmenn fara að gera mistök og fremja jafnvel gróf brot á leikvellinum til að ná sigri. Þetta er það sem ég óttast mest núna á síðustu dögunum fyrir kosningar. Hið besta fólk sem hefur boðið sig fram til að þjóna okkur íbúum Reykjanesbæjar næstu fjögur árin gleymir sér í hita leiksins og má ekki vera að því að kynna sér málin nógu vel og hendir þess vegna fram fullyrðingum sem eiga ekki við nein rök að styðjast og jafnvel persónulegum aðdróttunum. Þessi lýsing er ein ástæða þess að stundum gengur ekkert allt of vel að fá fólk til að taka þátt í stjórnmálastarfi. Það er líka svo auðvelt að benda á aðra og þurfa ekkert að axla ábyrgð. En það var ánægjulegt og fróðlegt að hlusta á síðasta bæjarstjórnafund núverandi bæjarstjórnar þar sem fulltrúar meirihluta og minnihluta sem nú hafa ákveðið að bjóða sig ekki fram eða hlutu ekki brautargengi í prófkjöri fluttu lokaræður sínar. Það var sammerkt með þeim öllum, hvar í flokki sem þetta fólk stendur, að síðustu fjögur ár höfðu verið lærdómsrík og ánægjuleg. Bærinn okkar hefði tekið miklum stakkaskiptum og gríðarlega margt áunnist á fjölmörgum sviðum. Bæjarfulltrúar tóku fram að þrátt fyrir málefnalegan ágreining um ýmiss mál hefði aldrei borið skugga á persónuleg samskipti og vinskap. Þessi hlýju og einlægu orð fráfarandi bæjarfulltrúa í garð hvers annars gáfu mér aftur von um að næsta bæjarstjórn gæti unnið á sambærilegan hátt, látið málefnin vera í fyrsta sæti, tekist á með rökum og réttmætum ábendingum, allt til þess gjört að gera bæinn okkar enn betri.

Og hver er ég?

Hvað vill gamall kennari í Njarðvíkurskóla til 25 ára og núverandi upplýsingatæknikennari í Fjölbrautaskóla Suðurnesja upp á dekk? Ég heiti Þorbjörg Garðarsdóttir, oftast kölluð Obba. Ég á fjögur börn og fjögur barnabörn (og tvö á leiðinni).
Jú, ég kenndi líka söguna um Litlu gulu hænuna og það var þessi sígilda og góða saga þar sem ekkert dýranna nema hænan litla vildi leggja nokkuð á sig við að undirbúa baksturinn á brauðinu góða, - en allir vildu borða það, sem varð til þess að ég sagði já þegar til mín var leitað af Sjálfstæðisflokknum í Reykjanesbæ. Ég hef fylgst ágætlega með störfum þess flokks undanfarin ár og ég er mjög sátt við það sem hann hefur staðið fyrir. Ég sat á sínum tíma í umhverfisnefnd og það hefur glatt mitt umhverfishjarta að sjá bæinn minn verða fallegri og fallegri með hverju árinu. Ég er móðir og amma og það hefur glatt móður – og ömmuhjartað mitt að sjá allt það sem gert hefur verið fyrir fjölskyldur og börn á undanförnum árum. Markvisst hefur verið unnið að því að lagfæra leikvelli bæjarins og gera þá öruggari fyrir ungviðið, en samkvæmt upplýsingum sem fram hafa komið á árlegum íbúafundum í hverfum bæjarins hafa 3 leikvellir verið lagfærðir á hverju ári. Það mætti lengi telja upp allt það sem gert er fyrir börnin okkar í Reykjanesbæ til að þroska þau og efla til sjálfstæðis.

Hvað segir hjartað þitt?

Metnaður og framsýni í skólamálum og forvarnarstarfi hefur sérstaklega glatt kennara- og móðurhjartað mitt, vegna þess að börnin okkar eru framtíðin sem við þurfum að hlúa vel að í nútíðinni.
Auðvitað er þetta ekki tæmandi listi yfir góð verk undanfarinna ára, en ef eitthvað af ofangreindu hefur líka snert hjartað þitt ágæti kjósandi þá átt þú samleið með okkur í Sjálfstæðisflokknum. Það er mjög mikilvægt að mæta á kjörstað og nýta kosningaréttinn sinn.


Kjósum XD til áframhaldandi góðra verka.


Kveðja,
Þorbjörg Garðarsdóttir.