Líf og fjör í Vogum fyrir kosningar

Listarnir 3 sem bjóða fram í sveitarstjórnarkosningunum á morgun héldu sameiginlega framboðsfund í Tjarnarsal í gærkvöld. Þar voru um 140 manns sem er rúmlega 11% af íbúum, eða nær 20% af þeim sem hafa kosningarétt. Samkvæmt höfðatölureglu svarar það til þess að um 1400 manns kæmu á almennan kosningafund í Reykjanesbæ!


Fundurinn fór mjög vel fram. Hann stóð í rúmar 2 klst. og var stjórnað af utanaðkomandi fundarstjóra. Fjórir efstu af hverjum lista fluttu ávörp og tóku þátt í umræðum og svöruðu skriflegum spurningum frá fundargestum. Umræður voru málefnalegar og eflaust fróðlegar fyrir þá sem enn áttu eftir að ákveða hvað þeir ætla að kjósa á morgun.

Fróðlegt væri að heyra af örðum sveitarfélögum með jafn almenna þátttöku í stjórnmálalífi og jafn almennan áhuga á málefnum sveitarfélags síns. Þetta getum við kallað lifandi lýðræði. Þessi áhugi er gott veganesti fyrir þá bæjarstjórn sem verður kjörin í Vogum á morgun.

Undirbúningur kosninganna hefur örvað mannlífið á margan hátt. Fólk pælir í því hvað hafi verið vel gert og hvað eigi helst að gera næstu 4 árin – hvernig eigi að verja skattpeningi okkar. Það hefur verið fjörug málefnabarátta í sveitarfélaginu undanfarnar 3 vikur. Alla daga koma 1-2 dreifibréf frá einhverju framboðanna í bréfalúguna svo segja má að hér hafi verið gefið út dagblað undanfarið.

Kosningaskrifstofurnar þrjár eru opnar daglega og má segja að hér séu 3 lifandi kaffihús með ókeypis veitingum og listviðburðir inn á milli. Ekki hefur veðrið spillt fyrir.


Það sorglega er að eftir kjördag hættir starfsemi þessara 3 kaffihúsa og dagblaðaútgáfunni verður hætt. Það er verðugt verkefni nýrrar bæjarstjórnar að efla félags- og menningalífið hér í bæ þannig að allir dagar ársins verði jafn skemmtilegir og gefandi eins og vikurnar fyrir kosningar.

Þorvaldur Örn Árnason
Höfundur er einn af 42 frambjóðendum í Sveitarfélaginu Vogar.