Leiðréttingar á rangfærslum um Framfarasjóðinn

Bæjarstjóri þarf að búa yfir ákveðnum eiginleikum. Þá er ég ekki að tala um að koma vel fram í sjónvarpi eða vera hress og skemmtilegur. Bæjarstjóri ber mikla ábyrgð gagnvart íbúum sveitarfélagsins sem hann stýrir. Það er nauðsynlegt að slíkur einstaklingur hafi þá þekkingu að bera að geta lesið úr jafn mikilvægum gögnum sem ársreikningar eru. Ég leyfi mér í því sambandi að efast um fjármálakunnáttu bæjarstjóraefnis H-listans, þetta álit byggi ég eingöngu á skrifum viðkomandi í þeim efnum og birt hafa verið í riti, bæði prentuðu og á netinu. Það þarf ekki langa og mikla yfirlegu yfir ársreikningum Sveitarfélagsins Voga til að komast að sannleikanum um Framfarasjóðinn. Í því samhengi þarf einnig að nefna að KMPG endurskoðunarskrifstofa sem áritar ársreikninginn gerði EKKI alvarlegar athugasemdir við ársreikninginn eins og haldið hefur verið fram í fyrrnefndum miðlum. Það borgar sig aldrei að reikna með að almenningur hafi ekki þekkingu og/eða áhuga á kynna sér þau opinberu gögn sem liggja að baki slíkra fullyrðinga. Bæjarstjóraefni H-listans datt í þá gryfju.


Það hafa ekki verið teknar út nærri 390 milljónir

Söluhagnaður hlutar Voga í Hitaveitu Suðurnesja var kr. 1.256 milljónir. Í ársreikningi sveitarfélagsins fyrir árin 2008 og 2009 kemur berlega í ljós að þeim rúmum 387 milljónum sem H-listinn heldur fram að hafi verið eytt, var alls ekki eytt. Hluti ávöxtunar áranna 2008 og 2009 var nýttur til framkvæmda og mildunar nauðsynlegra aðhaldsaðgerða í sveitarfélaginu. Afgangurinn er enn inni á bankabók Framfarasjóðsins.


Á margumtalaðri bls. 22 í ársreikningnum er fjallað um Framfarasjóðinn. Þar má sjá að um áramótin 2008/2009 var staðan á sjóðnum kr.1.461.470.546. Það er nettóniðurstaðan þegar tekið hefur verið tillit til ávöxtunar ársins 2008 að frádregnu því sem nýtt var í þágu sveitarfélagsins. Framfarasjóðurinn skal vera jafnhár stofnframlaginu í árslok, eða 1.256 milljónir, í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar frá 29. janúar 2009. Því var mismunurinn færður á annan sjóð í bókhaldinu, sem kallast Eignasjóður. Finna má hina þekktu tölu 387.035.471 sem „framlag frá eigin sjóðum“ í rekstrarreikningi Framfarasjóðsins. Þetta þýðir EKKI að þessi upphæð hafi verið tekin úr sjóðnum og eytt, heldur var hluta upphæðarinnar varið til framkvæmda og rekstrar, afgangurinn kr. 113.225.093 leggjast því aftur ofan á fyrrgreindar 1.256 milljónir. Staða Framfarasjóðsins var því 1.369.225.093 í árslok 2009 eins og kemur fram á bls. 23 í ársreikningnum.


Það er ekki nóg að kunna að draga frá, það þarf líka að kunna að leggja saman.


Björg Leifsdóttir

skipar 8. sæti E-listans í Vogum