Latibær kemur í Reykjanesbæ

Sú ákvörðun forsvarsmanna Latabæjar að vinna með Reykjanesbæ að uppsetningu Latabæjar skemmtigarðs í Reykjanesbæ er lýsandi dæmi um framsýni meirihluta Sjálfstæðismanna í atvinnu- og ferðamálum. Svona skemmtigarður sem ætlað hefur verið pláss í Rammahúsinu mun án nokkurs vafa draga að sér fjöldann allan af fólki sem koma mun í Reykjanesbæ á helgarrúntinum sínum til þess að heimsækja þennan ævintýraheim. Við höfum nú þegar séð að Vatnaveröldin dregur að sér mikið að fólki frá nágrannasveitarfélögunum og höfuðborgarsvæðinu og víst er að þetta yrði frábær viðbót fyrir þennan hóp.

Staðsetning Latabæjarskemmtigarðsins í Rammahúsinu við Reykjanesbrautina skapar einnig fjölmörg markaðsfæri til að fá erlenda ferðamenn inní bæinn enda er Latibær vinsælt barnaefni um allan heim og sýnt í sjónvarpi í um 140 löndum. Latibær hefur ekki áður ráðist í svona verkefni og mun þetta því auka sérstöðu bæjarins í ferðamálum.


Þetta verkefni er aðeins eitt af fjölmörgum dæmum um vinnu meirihlutans á síðustu árum við að auka ferðmannastraum til bæjarins hvort sem er innlendra eða erlendra ferðamanna. Aukin umferð ferðamanna skilar sér beint til annara fyrirtækja í bænum sér í lagi á sviði þjónustu og verslunar.

Höfundur er á framboðslista Sjálfstæðisflokksins
Jóhann Snorri Sigurbergsson