Kosningaáróður til vinstri

Nú er augljóst á allri umræðu um málefni HS orku að verulega er farið að styttast í kosningar. Kaup Magma Energy á hlut Geysis Green, sem er í eigu erlendra kröfuhafa Íslandsbanka, ætti að vera fagnaðarefni fyrir okkur Suðurnesjamenn. Þarna er kominn inn fjársterkur aðili, sem ætlar sér að fjárfesta fyrir verulegar fjárhæðir hér á svæðinu í virkjunum til ýmissa verkefna, þ.á.m. álvers í Helguvík, kísilverksmiðju og gagnavers. Ýmsum fullyrðingum hefur verið slegið fram af stjórnarandstöðuliðum hér í bæ, helst af Vinstri grænum og Samfylkingunni, í þeim eina tilgangi að blekkja og rugla umræðuna. Hér eru nokkur svör.

Verið að einkavæða auðlindina – RANGT!

Auðlindin er nú í eigu Reykjanesbæjar sem keypti hana af HS orku hf. á sínum tíma. HS. Orka er einkafyrirtæki og hefur verið með eignarhald frá einkafyrirtæki síðan Geysir Green keypti hlut ríkisins og margra sveitarfélaga hér á Suðurnesjum. Með samningnum um að Reykjanesbær keypti auðlindina var einmitt verið að koma henni í opinbera eigu, en tryggja áfram tækifæri HS orku til að starfrækja virkjanirnar á Reykjanesi í þágu atvinnuuppbyggingar hér á svæðinu með því að leigja þeim afnot gegn greiðslu.


Það er EKKI verið að selja auðlindirnar til útlanda!

Eins og að framan segir tryggði Reykjanesbær auðlindina í okkar eigu og okkar þágu með samningi sínum í sumar. Ekki á að selja hana enda var markmiðið einmitt að tryggja opinbert eignarhald þannig við ættum þess kost að velja þá aðilar vel, sem fengnir væru til að nýta afnotaréttinn gegn greiðslu frá HS orku. Þessar greiðslur munu skila bæjarsjóði verulegum tekjum.

Þessi sala leiðir ekki til hækkunar á rafmagni, né heitu og köldu vatni fyrir íbúa.

Sala á heitu og köldu vatni til íbúa er sérleyfisstarfsemi sem HS veitur sinna. Það er því einmitt í höndum fyrirtækisins, sem er í meirihlutaeigu Reykjanesbæjar, að flytja rafmagnið og heita og kalda vatnið til okkar. Því til viðbótar er staðreyndin sú að allar verðbreytingar á heitu og köldu vatni þurfa að hljóta samþykki yfirvalda til að ná í gegn. Þetta er einstök lagasetning og tryggir að erfitt er fyrir fyrirtækið að hækka verð, því þau þurfa jú að fá það fyrst samþykkt frá yfirvöldum, þ.e. okkur. Dreifing á rafmagni er líka sérleyfisbundin starfsemi á hendi HS Veitna, þar sem verðlag er bundið samþykki yfirvalda. Rafmagnssalan sjálf er samkeppnisvara. Ef einhver söluaðili raforku hækkar verðið umfram aðra geta viðskiptavinir skipt um orkusala. HS Veitur, sem eru í um 67% eigu Reykjanesbæjar sjá alltaf um að dreifa rafmagninu inn á heimilið en íbúar ráða sjálfir hvar þeir versla rafmagnið. Auk HS orku er hægt að leita eftir tilboðum til Orkuveitu Reykjavíkur, Orkusölunnar(Rarik), Norðurorku og Orkubús Vestfjarða því allir þessir aðilar eru að selja rafmagn á markaði.


Ég vona að þeir í framboði fyrir samfylkinguna í Reykjanesbæ fari nú að tala sama máli og þeir í Samfylkingunni í ríkisstjórn. Kosningaáróður með blekkingum er mér ekki að skapi. Ef Samfylkingin í Reykjanesbæ er hinsvegar algjörlega á því að það sé vont að fjársterkur og þekktur jarðfræðingur komi að fjármögnun virkjana á Reykjanesinu, svo atvinnuverkefni eins og álver, kísilver og gagnaver geti hafið starfsemi. Spyr ég á móti: Hvað ætlið þið að gera?


Með vinsemd,
Gunnar Ellert Geirsson, verkfræðingur