Kjarni málsins

Frá því að Árni Sigfússon tók við bæjarstjórastöðu í Reykjanesbæ árið 2002, fór ég að fylgjast betur með gangi mála hér. Konan mín var uppalin hér og við áttum vini og fjölskyldu í Reykjanesbæ en bjuggum á þessum tíma í Reykjavík. Ásýnd bæjarins tók hamskiptum, eftir að Árni varð bæjarstjóri. Það er varla hægt að tala um þetta sem sama bæinn, slíku grettistaki hefur verið lyft í umhverfismálum. Atvinnumál voru tekin föstum tökum en á þeim vettvangi höfðu dunið á gríðarleg áföll sem ekki var hægt að sjá fyrir. Á þeim vettvangi hefur þó enginn bæjarstjóri barist jafn ötullega og Árni Sigfússon. Í þeim málaflokki er ríkisstjórn landsins það eina sem með markvissum hætti virðist standa í vegi fyrir uppbyggingu, framförum og velferð.

En það eru málefni barnanna okkar og unga fólksins, hér í Reykjanesbæ, og hversu vel þeim er háttað sem varð í raun til þess að við hjónin ákváðum að setjast hér að.

Þegar við tókum þá ákvörðun, sem var fyrir um tveimur árum, hitti ég kunningja minn á förnum vegi. Hann hafði verið skólastjóri um áratugaskeið í einum af grunnskólunum í Reykjavík og var nýkominn á eftirlaun. Þegar þessi góði maður heyrði af þeim áformum okkar hjóna og forsendurnar sem við gáfum okkur. Þá sagði hann nánast orðrétt að hvergi á landinu væru málefni tengd skólamálum barna og unglinga tekin af jafn mikilli festu og þrautseigju og í Reykjanesbæ, eftir að Árni Sigfússon tók þar við bæjarstjórastólnum. Það gladdi mig mikið að fá þessa staðfestingu á ákvörðun okkar úr all óvæntri átt.

Þetta samtal mitt við gamla skólastjórann rifjaðist upp fyrir mér á íbúafundi með Árna Sigfússyni núna í byrjun maí í Akurskóla. Þar fór Árni yfir gang mála með bæjarbúum Innri Njarðvíkur á sama hátt og hann gerir með íbúum allra annarra hverfa, og hefur gert á þessum árstíma á hverju ári. Á fundinum krystallaðist það enn einu sinni fyrir mér hvað íbúar Reykjanesbæjar eru í raun heppnir með bæjarstjóra. Hvergi hef ég upplifað aðra eins yfirsýn og festu þegar kemur að málefnum fjölskyldunnar. Þau mál skipta mig miklu máli ekki síður en atvinnumál og umhverfismál.

Félagshyggjuflokkunum, Vinstri grænum og Samfylkingunni, gengur illa að klekkja á framtíðarsýn Árna Sigfússonar og Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ. Það er einfaldlega vegna þess að þegar kemur að þeirra helstu málum, sem eru samfélagið og umhverfið þá er Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ, undir forystu Árna, lengra kominn en aðrir í þessum málaflokkum. Þess vegna er talað um fjármál, málaflokkur sem hefur aldrei farið vinstri mönnum neitt sérstaklega vel. En gott og vel. Það er hvert einasta fyrirtæki á landinu og hvert einasta sveitarfélag á landinu og ríkisstjórnin öll að berjast um á hæl og hnakka í sínum rekstri. Aðstæður hafa gjörbreyst hjá öllum, sumir voru betur undirbúnir en aðrir. Staðan í fjármálum Reykjanesbæjar er betri en á flestum öðrum stöðum og er núverandi forysta með það alveg á hreinu hvað þarf til að styrkja stöðuna enn frekar. Stækka tekjustofninn með aukinni atvinnu, t.d. í Helguvík og á Ásbrú. Þess vegna berst Árni Sigfússon fyrir stóru verkefnunum. Hann veit að slík stórverkefni skila ekki bara vel launuðum störfum heldur líka tekjum inní sveitarfélagið.

Nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar í málefnum Magma er ekkert annað en kostulegt. Þar vinna Magma og Geysir Green eftir lögum sem Samfylkingin var í sporgöngu með að samþykkja og fimm manna stjórn Geysir Green, sem selur Magma þessa hluti er skipuð fjórum fulltrúum Íslandsbanka sem var, þegar stjórnin var skipuð, ríkisbanki undir stjórn fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar. Samfylkingin og VG halda þannig áfram að vinna með markvissum hætti að því að setja atvinnutækifæri hér í Reykjanesbæ í uppnám. Þrátt fyrir fögur loforð þeirra um að gera það ekki í Keflavíkurgöngunni síðastliðið haust.

Andstæðingar Árna sem hafa viljað tala illa um hann og sagt að hann sé of ákveðinn. Mér finnst það góðar pælingar. Ef það er nú það versta sem hægt er að segja um hann eftir margra ára uppgröft í "finnum veikan blett á Árna" vinnuhópnum, að Árni sé fylginn sér. Þá er svarið já! Auðvitað er hann ákveðinn. Hann vinnur hratt og ákveðið enda hefur hann verk að vinna. Hann og D-listi sjálfstæðismanna hafa skýra sýn og skýr markmið. Þeir höfðu skýrt lýðræðislegt umboð bæjarbúa og hafa, þegar þetta er skrifað, efnt 60 af 64 loforðum frá síðustu kosningum. Það er kjarni málsins fyrir þessar kosningar. Það moldviðri sem nú er keyrt upp úr öllum áttum er hannað til þess að draga athyglina frá aðalmálunum því þar hafa forystumenn annarra framboða ekki tærnar þar sem Árni Sigfússon hefur hælana.

Ég hvet fólk til að skoða bæinn sinn út frá þessum atriðum. Líta á sitt næsta umhverfi, börnin og aðbúnað í öllu sem að þeim kemur. Láta ekki stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í orkumálum rugla sig í rýminu í bæjarstjórnarkosningum. Þessum fallega og fjölskylduvæna bæ okkar er best borgið með Árna sem bæjarstjóra áfram. Það sýnir meira segja í skoðanna könnunum að fylgi hans sem bæjarstjóra nær langt út fyrir Með það að leiðarljósi ætla ég að kjósa Sjálfstæðisflokkinn á laugardag og reyna þannig að tryggja að Árni Sigfússon verði áfram bæjarstjóri í Reykjanesbæ. Það er kjarni málsins.


Einar Bárðarson,
nýbúi Innri Njarðvík