Kæri óákveðni kjósandi

Lýðræði eru forréttindi, lýðræði er grundvöllur fyrir því frelsi sem við búum við. Við erum allin upp í lýðræðislegu samfélagi. Við þekkjum ef til vill flest ekki hvað það er að búa ekki við lýðræði. Í lýðræðinu okkar felst, að á fjögurra ára fresti kjósum við okkur forseta, ríkisstjórn og bæjarstjórn. Það er skylda okkar allra að reyna eftir bestu getu að taka upplýsta ákvörðun um það hvað við viljum til næstu fjögurra ára og hvaða fólk við viljum að fari með okkar hagsmuni.
Það er gífurlega mikið í húfi og hvert atkvæði skiptir miklu máli. Fólk hefur oft rekið sig á að það munar litlu að hlutirnir gangi. Þjónum lýðræðinu, tökum þátt í samfélaginu ,kynnum okkur stefnu flokkana og veljum það sem okkur hugnast best.

Óánægja kraumar í mörgum og víða sjáum við mörg framboð, enda er ekkert lýðræðislegra en að bjóða fram sjálfur ef maður finnur ekkert ásættanlegt til að setja x við. Það að mæta ekki á kjörstað er vanvirðing gagnvart sjálfum okkar og samfélaginu. Vanvirðing gagnvart lýðræðinu! Ef þú finnur ekkert við hæfi, þrátt fyrir góða tilraun, þá er það lágmark að mæta á kjörstað og skila auðu. Það að skila ekki atkvæði er eins og að segja að manni sé sama. Sama um lýðræðið, frelsið og samfélagið. Sama um sig og náunga sinn.

Kæri óákveðni kjósandi. Taktu þátt í samfélaginu, veldu það sem þér hugnast best og vertu virkur í að segja því fólki fyrir verkum sem þú velur, því frambjóðendur eru að bjóða sig fram í vinnu fyrir þig. Þitt atkvæði skiptir öllu máli.
Ræktum lýðræðið, tökum þátt!

Þormóður Logi Björnsson,

skipar 2. sæti á lista VG í Reykjanesbæ.