Kæri íbúi í Reykjanesbæ

Útlit er fyrir að skúffufyrirtækið Magma Energy Sweden eignist HS Orku og eigur þess á næstu vikum, verði ekkert að gert.

Magma hefur þegar keypt einu raunverulegu verðmætin sem voru í Geysir Green Energy (GGE), en það fyrirtæki var aldrei annað en skuldsett útrásarævintýri. Sú staðreynd lá fyrir þegar Reykjanesbær seldi fyrirtækinu hlut sveitarfélagsins í HS Orku.

Reykjanesbær fjármagnaði sjálfur stærstan hluta viðskiptanna með 6,3 milljarða kúluláni til 7 ára. Horfur um heimtur eru hóflegar og hafa endurskoðendur Reykjanesbæjar nú þegar endurmetið lánið og telja virði þess nú aðeins 5,7 milljarða. Bæjarstjórnin veitti kúlulánið án þess að meta fjárhagslegt hæfi GGE til þess að standa við skuldbindingarnar. Skuldbinding af þessu tagi getur ekki annað en hækkað verð á raforku og heitu vatni til neytenda, en Magma mun verða í einokunaraðstöðu þegar kemur að sölu á heitu vatni á Suðurnesjum.

Við Suðurnesjamenn verðum að spyrja:

1.    Voru hagsmunir íbúa hafðir að leiðarljósi þegar þessi viðskipti fóru fram?
2.    Til hvers þurfti að selja hlut Reykjanesbæjar í HS Orku?


Þegar er ljóst að afla þurfti tekna fyrir bæjarsjóð þar sem uppsafnaður halli vegna reglubundinnar starfsemi bæjarins á yfirstandandi kjörtímabili nemur nær þrjú þúsund milljónum (3 milljörðum). Sú tala kemur heim og saman við lausaféð sem fékkst í viðskiptunum og þurfti til þess að bjarga greiðsluflæði sveitarfélagsins fyrir horn.

Á kjörtímabilinu þar á undan voru verðmætar eignir, svo sem skólar, menningar- og íþróttamannvirki seld til þess að fjármagna halla af reglubundnum rekstri bæjarsjóðs.

Reykjanesbær er á meðal 10 sveitarfélaga á gjörgæsludeild eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga. Ef frá er talið fyrsta ár Árna Sigfússonar í bæjarstjórastóli (2002) hefur verið halli af almennri starfsemi sveitarfélagsins hvert einasta ár.

Samfelld saga skuldasöfnunar og eignasölu segir sitt, og nú ætlar sitjandi meirihluti D-lista að selja orkuauðlindir okkar til afnota fyrir útlent skúffufyrirtæki í margar kynslóðir. Tilgangurinn er að fela fjármálaóstjórn síðustu ára fram yfir kosningar og til þess að bjarga eigin skinni.

Komum í veg fyrir að D-listinn komist upp með þessa svívirðu.

Kjósum breytingar 29. maí.

Áhugahópur um auðlindir í almannaeigu.