Höfnum fyrningarleið ríkisstjórnarinnar

Það má með sanni segja að Grindavík er stoltur sjávarútvegsbær. Grundvallaratvinnugrein Grindavíkur er sjávarútvegur og tryggja verður að svo verður áfram. Afstaða framsóknarmanna gagnvart fyrningarleið ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri Grænna hefur ávallt verið skýr, Framsókn í Grindavík hafnar fyrningarleiðinni og sama má segja um flokkinn á landsvísu. Fyrningarleiðin í núverandi mynd er aðför að sjávarútvegsfyrirtækjum landsins en einnig gegn efnahagslegum stöðuleika Íslands. Fyrningarleiðin gæti stuðlað að öðru bankahruni auk þess sem sú uppbygging sem átt hefur sér stað í sjávarútvegi er stefnt í hættu. Ljóst er að nauðsynlegt er að mynda sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið en sátt næst ekki með einhliða aðgerðum ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri Grænna.


Sameinuð stöndum vér – Sundruð föllum vér
Það er fagnaðarerindi að framboð Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og G-listans í Grindavík hafa opinberlega hafnað fyrningarleið ríkistjórnarinnar auk þess sem oddviti Vinstri Grænna segir í viðtali við Víkurfréttir að þeir vilji tryggja að kvótinn verði áfram í Grindavík. Samstaða var um það í síðustu bæjarstjórn að mótmæla fyrningarleið ríkisstjórnarinnar og þann 6. maí 2009 var eftirfarandi ályktun bókuð af öllum bæjarstjórnarmönnum.

„Bæjaryfirvöld í Grindavík eru sammála um að fyrningarleiðin sé ekki ásættanleg fyrir byggðina og hafna því harðlega að hún verði farin núna. Bæjarbúar í Grindavík hafa alltaf verið sammála um að sjávarútvegur sé lífæðin og grundvallaratvinnugrein byggðarinnar. Grindvíkingar hafa oftar en einu sinni verið settir í óvissu vegna umræðu innan stjórnmálaflokka um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Mikilvægt er að skapa ró um sjávarútveg og fiskvinnslu þannig að horfa megi til lengri tíma. Í Grindavík hafa menn lagt sig alla fram um að skapa atvinnu og halda fyrirtækjum gangandi. Það á að vera keppikefli allra að byggja áfram á grunnstoðum sjávarútvegsins. Fiskveiðar og vinnsla hafa verið okkar haldreipi í gegnum tíðina, eins og hefur sýnt sig best í verstu kreppu sem riðið hefur yfir þjóðina. Þess vegna ber að halda kvóta í heimabyggð og sækja fram á við, hvað sem á dynur. Sterk fyrirtæki í Grindavík gagnast öðrum sveitarfélögum, eins og hefur sýnt sig.


Atvinnulífið í Grindavík er með því besta sem gerist á landinu í dag. Bæjaryfirvöld standa umfram allt vörð um hagsmuni bæjarbúa og vara við því að hnykkt verði í þeim styrkum stoðum atvinnulífsins sem sjávarútvegurinn er."

Vonandi munu allir þeir sem mynda bæjarstjórn Grindavíkur næstu fjögur árin standa saman í því að vernda atvinnulífið í Grindavík. Samstaða um málið var áður og það ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að samstaða náist með nýrri bæjarstjórn. Þetta gefur bæjarbúum einnig von um að komandi bæjarstjórn geti starfað saman með það að leiðarljósi að gera góðan bæ en betri.Bryndís Gunnlaugsdóttir
1.sæti á lista Framsóknar í Grindavík