Hann er ekki í neinum fötum!

Vitleysa verður ekki að sannleika, þó að hún sé sögð nógu oft. Flest höfum við lesið ævintýrið um nýju föt keisarans. Tveir svikahrappar komu á fund keisara og buðust til að sauma á hann dýrindis föt. Efnið var fokdýrt, en algerlega þess virði, að sögn svikahrappanna, þar sem það var alveg einstakt. Svo „hófst“ verkið. Enginn sá hvað svikahrapparnir voru að gera á saumastofunni en þeir náðu, með undraverðum hætti, að sannfæra keisarann, hirðina og þegnana að um meistaraverk væri að ræða. Svo kom að því að fötin voru tilbúin. Þrjótarnir færðu keisarann í þau með mikilli viðhöfn og hann mætti í þeim í skrúðgöngu. Allir dáðust að honum en svo þagnaði mannfjöldinn þegar saklaust barn í hópnum hrópaði: „Hann er ekki í neinum fötum!“ Þá rann ljós upp fyrir keisaranum. Hann hafði verði blekktur. En svikahrapparnir voru þegar farnir með launin fyrir saumaskapinn.


Of flókið fyrir venjulegt fólk?
Mér dettur þetta ævintýri oft í hug þegar fjármál bæjarins koma til tals. Sérstaklega þegar ég hlusta á heittrúaða Sjálfstæðismenn mæla. Þeir halda því fram að Rekjanesbær standi nú ekki svo illa. Þetta sé allt saman misskilningur. Áróður. Tilbúningur. Nú, eða bara alls ekki svon einfalt...ég og aðrir, sem bendum á hallareksturinn, skiljum þetta bara alls ekki. Já, öll þessi núll rugla okkur, óbreyttan almúgann.


Einn sannleikur
Staðreyndin er að fjármál bæjarins sýna eina niðurstöðu. Þegar gjöld hafa verið dregin frá tekjum, þá er rekstur bæjarsjóðs neikvæður um tæplega eitt þúsund og tvö hundruð milljónir. Hagnaður vegna sölu í Hitaveitu Suðurnesja nam ellefu milljörðum króna, að sögn meirihlutans. Samkvæmt skýrslu endurskoðenda Reykjanesbæjar er : „...mikil óvissa um virði skuldabréfsins.“ Þessi tala hefur verið notuð, af meirihlutanum, til að sýna fram á hagnað bæjarsjóðs, upp á tæpa átta milljarða. Ef við tökum söluna á bréfum í HS ekki inn í reikningana, sem gæfi sannari mynd af stöðunni, þá er tapið ríflega þrír milljarðar króna. Það er ekki að ástæðulausu að fjármál Reykjanesbæjar eru undir smásjá Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Það er háalvarlegt mál.


Ábyrg meðferð fjármuna?
Í sveitastjórnarlögum stendur skýrum stöfum: 64. gr. [Útgjöld úr sveitarsjóði og meðferð fjármuna og fasteigna.]1). „Sveitarstjórn skal gæta ábyrgðar í meðferð fjármuna sveitarfélagsins og tryggja örugga ávöxtun þeirra.“ Hefur meirihluti Reykjanesbæjar farið að þessum lögum? Er örugg ávöxtun að taka við skuldabréfi upp á 5,8 milljarða fyrir hlut bæjarins í Hitaveitunni, bréfi sem bundið er til 10 ára og virði þess ræðst að álverði í heiminum að þeim tíma liðnum?


Til umhugsunar : „ Hvers vegna þarf að skera niður þjónustu um 250 milljónir króna á ári í skólamálum ef Reykjanesbær er rekinn með 7,7 milljarða króna hagnaði, eins og meirihlutinn heldur fram?“


Sannleikurinn er sá, að hann er ekki í neinum fötum.


Viðurkennum staðreyndir. Beitum rökhugsun og skynsemi. X-B!


Silja Dögg Gunnarsdóttir,
í 2. sæti Framsóknar í Reykjanesbæ