Getum við verið bjartsýn?

Það hefur verið mikil reiði í öllu þjófélaginu undanfarin ár. Fólk er þreytt á allri þessari neikvæðu umræðu og margir eru hættir að trúa á stjórnmál og stjórnmálamenn. Ég skil þetta og er sjálf orðin hundleið á þessari neikvæðu umræðu og finn fyrir þessari þreytu.


Þegar maður skoðar rekstur bæjarsjóðs Reykjanesbæjar eru tekjurnar tæpar 7 miljarðar en reksturinn rúmir 8 miljarðar. Það vantar 1.2 miljarða uppá svo hægt sé að reka bæjarsjóðinn. Það er 15 % atvinnuleysi í Reykjanesbæ öll loforð meirihlutans um aukna atvinnu hafa að engu orðið. Fleira væri hægt að telja upp. Það er einmitt þessi pólitík sem ég er orðin svo þreytt á. Maður fær bara nóg af loforðum sem ekki eru efnd og undarlegri forgangsröðun sem er hjá meirihluta Sjálfstæðismanna hér í bæ. Finnst fólki ekki skrýtið að við eigum nánast engar fasteignir, að það sé búið að selja alla skólana okkar, en það er alltaf talað um að við eigum hlut í Fasteign eða um 24 %. En hversu vel stendur Fasteign?


En nóg um þetta tuð sem kemur manni í vont skap. Getum við íbúar í Reykjanesbæ verið bjartsýn á framtíð bæjarfélagsins? Ég trúi því að með breyttri forgangsröðun getum við horft bjartsýn til framtíðar.


Ég fagna því að málefni fatlaðra flytjast yfir til sveitarfélaga um næstu áramót þannig flyst þjónustan í nærsamfélagið og ætti að vera aðgengilegri fyrir alla aðila.


Hægt er að virkja ungmennalýðræði í bæjarfélaginu með því að setja t.d. á stofn ungmennaráð þar sem ungmenni læra lýðræðisleg vinnubrögð og geta haft áhrif á málefni sem þeim tengjast.


Ég hef mikla trú á að við getum hækkað hvatagreiðslur til foreldra og forræðismanna til að greiða niður íþrótta og tómstundaiðkun barna.


Tómstundakennsla eða tómstundakynning inn í grunnskóla væri auðvelt að framkvæma þar sem hægt er að hvetja börnin okkar enn frekar til að sinna tómstundum.


Að mínu mati þarf að halda betur utan um ungmenni á aldrinum 16 – 22 ára. Það er stór hópur ungs fólks sem er atvinnulaus og þarf að útbúa heildstæðari úrræði til að halda þeim í meiri virkni.


Nokkrir leikskólar og grunnskólar eru að vinna mikið með umhverfi sitt og eru meðal annars að flokka allt sorp. Það þarf að auðvelda heimilum til að taka þátt í þessu starfi með því að t.d. að gera fólki kleift að hafa fleiri tunnur heima til að flokka rusl eða hafa fleiri grenndar tunnur, líka undir lífrænan úrgang.


Við erum að ganga í gegnum ákveðna erfiðleika, það er mikið atvinnuleysi, það er mjög víða mikill niðurskurður sem bitnar á einstaklingum og fjölskyldufólki. Það er á svona tímum sem bæjabúar þurfa að standa saman, það er á svona tímum sem samfélagsleg ábyrgð verður meira áberandi.


Við þurfum að standa saman hér í Reykjanesbæ og breyta forgangsröðuninni þannig að við getum byggt upp samfélag fyrir alla. Með þetta að leiðarljósi er ég bjartsýn fyrir framtíð Reykjanesbæjar.

Jenný Þórkatla Magnúsdóttir
Þroskaþjálfi og situr í 4.sæti á framboðslista Samfylkingarinnar