Fyrr frýs í Helvíti

Að gefnu tilefni vill framboð VG í Reykjanesbæ árétta það sem fram kemur í kosningaáherslum framboðsins. Takist að fella sitjandi meirihluta á laugardaginn mun VG ekki ganga til meirihlutasamstarfs við D-lista. Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að fram fari rannsókn á fjármálum sveitarfélagsins og söluferli við sölu á fasteignum þess. Jafnframt leggur framboð VG áherslu á að fram fari rannsókn á hruni Sparisjóðs Keflavíkur og aðkomu kjörinna fulltrúa, og eignarhaldsfélaga í þeirra eigu, að því máli. Rannsókn á falli Sparisjóðs Keflavíkur þarf að vera hliðstæð rannsókn Alþingis á bankahruninu.

Rannsóknarskýrsla Alþingis leiddi í ljós spillingu og óeðlileg samskipti fjármálaheimsins og kjörinna fulltrúa, sbr. t.d. óeðlilegar styrkveitingar bankanna til einstakra stjórnmálamanna úr röðum D-lista, S-lista og B-lista. Fyrir vikið hefur tiltrú almennings á stjórmálum farið minkandi. Trúverðug úttekt á sölu D-listans á eignum almennings, s.s. skólum, íþróttamannvirkjum og nú síðast HS Orku, verður best gerð án beinnar aðkomu þeirra sem hlut eiga að máli.

VG og Sjálfstæðisflokkur eru megin pólarnir í íslenskum stjórnmálum þar sem D-listi beitir sér fyrir hagsmunum fjármagnseigenda, s.s. með því að vilja festa í sessi „eignarrétt“ fáeinna aðila að fiskistofnum þjóðarinnar.  VG er hinsvegar flokkur félagshyggju, réttlætis, jafnréttis og náttúruverndar. Sögusagnir um að Vinstri hreyfingin – grænt framboð muni ganga til samstarfs við D-lista að loknum kosningum eru algjörlega úr lausu lofti gripnar. Vinstrihreyfingin grænt framboð er aftur á móti öruggasti valkosturinn fyrir þá sem vilja koma í veg fyrir áframhaldandi valdasetu D-lista enda sýnir sagan að hinir flokkarnir hafa allir gengið til samstarfs við frjálshyggjuöflin og bera fyrir vikið sína ábyrgð á efnahagshruninu sem hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar, gróðahyggja og græðgi, leiddi samfélagið í eftir samfellda 18 ára valdasetu Sjálfstæðisflokks.

Kæri kjósandi, settu x við V á kjördag svo tryggja megi velferðarstjórn á viðreisnarskeiði.

VG Reykjanesbæ.