Frá hálfvitanum á Greniteigi 20

Í tilefni af grein frambjóðanda Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ kemst ég ekki hjá því að benda á eftirfarandi.


Þeir sem raunverulega þekkja söguna frá Farum vita að bæjarstjórinn þar var í raun óreglumaður. Ég bjó í Danmörku þegar Farum málið stóð sem hæst. Þar var um að ræða mútur, svik, fjárdrátt og almennt ótæka stjórn af hálfu mjög drykkfellds bæjarstjóra. Peter Brixtofte var einfaldlega mjög lasinn maður. Þessi samlíking frambjóðanda Samfylkingarinnar við bæjarstjórann okkar er á lægra plani en nokkuð annað sem ég hef lesið hingað til í aðdraganda þessara kosninga. Þegar ég ákvað að bjóða mig fram og berjast fyrir bæjarfélagið mitt hafði ég heyrt af því að önnur framboð hér í bæ væru vön því að grípa til neyðarúrræða þegar illa gengur í kosningabaráttu. Ég var því vel undirbúinn fyrir harðar árásir á Sjálfstæðismenn, en mér ofbauð gjörsamlega þegar frambjóðandi Samfylkingarinnar tók að ráðast á bæjarbúa sjálfa með fúkyrðum fyrir að ætla ekki að kjósa samkvæmt því sem henni hentar.

En þá að rangfærslum hennar um Reykjanesbæ
Reykjanesbær er enn eigandi fasteignanna okkar í gegnum félagið Fasteign, þar sem við erum stærsti eigandi (24,63%) meðal sveitarfélaga. Í tveimur nýlegum skýrslum frá sérfræðingum Capacent annarsvegar og KPMG hinsvegar, hefur verið sýnt fram á að hagkvæmara hefur verið fyrir Reykjanesbæ að vera inn í Fasteign en ef eignirnar hefðu verið í eign bæjarsjóðs. Málflutningur gegn þeirri ráðstöfun er því ekki á rökum reistur. Þetta eiga frambjóðendur til bæjarstjórnar að vita.

Skuldir bæjarsins hafa aukist í takt við vöxt bæjarins, en jafnframt jukust þær mikið þegar við eignuðumst HS veitur að stærstum hluta og auðlindir og land, sem áður voru í meirihlutaeigu einkaaðila. Vegna bókhaldsreglna, sem Reykjanesbær virðir í hvívetna, reiknast nú eignir og skuldir HS veitna sem hluti af samstæðu okkar. HS Veitur eru þó að sjálfsögðu sjálfstætt fyrirtæki. Það selur íbúum heitt og kalt vatn og dreifir raforku til heimila okkar. Fyrirtækið skilar föstum en hógværum hagnaði á hverju ári, þannig að skuldir fyrirtækisins verða aldrei baggi á bæjarsjóði. Reykjanesbær á 67% í HS veitum. Rétt er að halda því til haga að 60% af raforkureikningi okkar bæjarbúa rennur sem tekjur til þessa sameiginlega fyrirtækis okkar. Sé heitt og kalt vatn tekið með eykst þetta hlutfall enn frekar því rúm 80% af því sem við greiðum fyrir raforku, kalt og heitt vatn rennur til þessa sameiginlega fyrirtækis okkar.

Hlutfall skulda af eignum er tæp 60%, sem þýðir að eiginfjárstaða Reykjanesbæjar er mjög sterk og með því besta sem gerist á meðal stærri bæjarfélaga. Á síðasta ári greiddi Reykjanesbær upp annað þeirra erlendu lána sem á bænum hvíldu. Þetta eiga frambjóðendur til bæjarstjórnar líka að vita.

Árni bæjarstjóri hefur leitt frábært starf okkar frambjóðenda fyrir komandi kosningar og vinnu við framtíðarsýn okkar fyrir Reykjanesbæ næsta kjörtímabil. Við horfum björtum augum til framtíðar með mjög skýra framtíðarsýn fyrir bæinn okkar, enda ekki ástæða til annars. Unnið hefur verið ötullega að uppbyggingu sem mun skila sér í betur launuðum störfum og þannig auka tekjur bæjarsjóðs til muna. Ekkert íslenskt bæjarfélag býr við eins mikil tækifæri og Reykjanesbær - það er óhagganleg staðreynd!


Gunnar Ellert Geirsson
Greniteigi 20 í Reykjanesbæ.