FJÖLSKYLDUBÆR?

Ég verð alltaf jafn hissa þegar ég heyri sjálfstæðismenn tala um Reykjanesbæ sem fjölskyldubæ. Eru þeir í alvöru að meina þetta? Eða er þetta kannski kaldhæðni? Ég trúi því ekki að þeir trúi þessu sjálfir og bíð hálfpartinn eftir því að einn daginn standi þeir upp og segi „nei, djóóók“.


Er það fjölskyldubær, þar sem fólk hefur ekki efni á að vera með börnin sín í frístundaskóla? Kallast það fjölskyldubær þegar leikskólar loka kl. 16:15? Er það í fjölskyldubæjum sem fundartímar leikskólakennara eru fluttir inn í starfstímann og við bætast 5 skertir starfsdagar á ári? Er það fjölskylduvænt að hafa lægstu hvatagreiðslur sem þekkjast? Ef sjálfstæðismenn halda að fríar sundferðir og fríar strætisvagnaferðir dugi til að gera bæinn fjölskylduvænan þá skjátlast þeim illilega. Eigum við kannski að láta börnin bara taka strætó í sund þegar leikskólarnir loka? Þau geta kannski bara hinkrað í pottinum eftir því að pabbi og mamma komi úr vinnunni?


Það er nokkuð ljóst að það þarf að breyta áherslum og forgangsröðun í rekstri bæjarins. Gerum Reykjanesbæ að raunverulegum fjölskyldubæ!!!


Ragnheiður Ásta Þorvarðardóttir
6. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ