Fjölnotaleiðin Strandleið

Fjölskyldan og góð heilsa er dýrmæt eign þeirra sem það eiga. Tímaleysi er síðan sá óvinur sem herjar hvað mest á þessa dýrmætu eign. Hver kannast ekki við að “hafa aldrei tíma til að gera eitthvað skemmtilegt með allri fjölskyldunni “ eða “hafa aldrei tíma til að rækta líkama og sál og bæta heilsuna”?


Góðar fréttir fyrir okkur sem þannig hafa hugsað, Strandleiðin er allt sem þarf og hún er hérna í Reykjanesbæ. Hægt er að fara með alla fjölskylduna út að ganga, skokka, hjóla eða renna sér á línuskautum allt að 10 km leið og njóta í leiðinni hressandi útivistar meðfram fallegri fjörunni iðandi af fjölbreyttu dýralífi.


Ekki nóg með það heldur er þetta ódýr og alls ekki tímafrek lausn á verðmætum samverustundum fjölskyldunnar auk þess sem allir hafa kost á að bæta á sig sögulegum fróðleik um bæinn okkar á þar til gerðum spjöldum sem fest hafa verið á stórgrýti víðsvegar á leiðinni.


Sú áhersla sem Sjálfstæðisflokkurinn, undir forystu Árna Sigfússonar, lagði á mótun Strandleiðarinnar var að hafa notagildið sem fjölbreyttast og erfitt er að færa haldbær rök fyrir því að það hafi ekki tekist. Ungir sem aldnir geta notið leiðarinnar hver á sinn hátt, nóg er af bekkjum til að hvíla sig og njóta útsýnis. Ruslafötur eru til staðar og jafnvel borð og sæti til að borða nesti.


Landrof og úrgangslosun í fjörunni heyra nú sögunni til og í staðinn er snyrtileg strandlengja með smekklega hlöðnu grjóti, sem nýttist úr Helguvík, ásamt steyptum göngustígum með rómantískri lýsingu tilbúið að bjóða hvern þann sem áhuga hefur á að nýta þessa fjölbreyttu valkosti velkomin til leiks.


Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ hefur ávallt haft að leiðarljósi að vinna að bættum hag bæjarbúa og um leið ímynd bæjarins. Tryggjum áframhaldandi framfaraþróun með Árna Sigfússon sem bæjarstjóra og það er bara ein leið: X við D.Björk Þorsteinsdóttir

skipar 7. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins.