Ferðaþjónusta í Vogum

Ferðaþjónusta er ört vaxandi atvinnugrein á Íslandi. Vogar eru mitt á milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins. Við erum því vel í sveit sett til að taka á móti jafnt innlendum sem erlendum ferðamönnum og selja þeim ýmiss konar þjónustu. Enn sem komið er eru það helst Golfklúbburinn og Mótelið sem fjöldi gesta sækir heim og greiðir fyrir veitta þjónustu.


Býsna margir njóta þess að ferðast um Trölladyngjusvæðið og ganga á Keili en þar er engin þjónusta til sölu. Þeir sem ganga á Keili skrifa nafnið sitt í gestabækur sem Vogabúinn Helgi Guðmundsson hefur haldið þar úti í áratugi og njóta nýrrar útsýnisskífu sem Ferðamálasamtök Suðurnesja settu þar upp með styrk frá Sveitarfélaginu Vogar. Margir koma að Háabjalla og að Snorrastaðatjörnum og einnig er vinsælt að ganga gamlar þjóðleiðir eins og Skógfellaveginn. Þeir sem kynnast Vatnsleysuströndinni uppgötva fljótt fegurðina þar og njóta þess að aka Vatnsleysustrandarveginn eða ganga með ströndinni eða upp að Staðarborg. Líku máli gegnir um Vogavík og Vogastapa og á þjóðsagnastaðnum Grímshól er útsýnisskífa.


Hér er saga í hverju spori og náttúrufegurð hvert sem litið er. Á eldgosatíma er merkilegt að minnast þess að um 90% af sveitarfélaginu okkar er á einu og sama hrauninu, Þráinsskjaldarhrauni, sem kom upp í miklu dyngjugosi fyrir rúmum 10.000 árum. Það kom upp skammt frá Keili og náði til sjávar allt frá Kúagerði að Vogastapa.


Á sögumálþingi í Tjarnarsal um daginn kom berlega í ljós að við eigum merka sögu sjósóknar, seljabúskapar og menningar. Ströndin var þéttbýl miðað við það sem þá gerðist á landinu. Á 19. öld var hér mikill uppgangur með öflugri útgerð og byggð mörg vegleg hús. Hér var stofnaður einn af fyrstu barnaskólum landsins og lestrarfélagið Baldur stofnað litlu síðar, en það er nú bókasafn okkar. Þeir sem vilja fá innsýn í lífið hér upp úr miðri 20. öld geta farið inn á myndasafn minjafélagsins á Vogavefnum eða lesið bók Guðmundar Björgvins Jónssonar: Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi.


Af framangreindu er ljóst að við eigum náttúru og sögu sem við þurfum sjálf að þekkja vel og vekja athygli á og heilla gesti okkar með. Við þurfum leiðsögumenn sem gjörþekkja þetta allt og það þarf að gera uplýsingaskilti, kort og bæklinga. Við þurfum matsölu- og kaffihús, fjölþættari gistiþjónustu, tjaldstæði, hjólreiðastíga, reiðvegi, áhugaverð söfn, strandstangveiði og meira líf við okkar frábæru smábátahöfn svo eitthvað sé nefnt. Auk gestanna myndu allir íbúarnir njóta góðs af slíkri uppbyggingu. Það yrði enn skemmtilegra að eiga hér heima.


Við blasir það verkefni sveitarstjórnarinnar að stuðla að því að margir taki höndum saman um að byggja hér upp öfluga, fjölþætta ferðaþjónustu sem gæfi m.a. tekjur og atvinnu. Eitt af stefnumálum E-listans er að vinna að náttúru- og menningartegndri ferðaþjónustu í samvinnu við félög og einstaklinga. Það er mikilvægur þáttur í að móta atvinnustefnu fyrir sveitarfélagið. Sú vinna er nýhafin og E-listinn mun halda því starfi árfam af krafti ef hann fær til þess brautargengi í komandi kosningum. Okkur klæjar í lófana að takast á við slík verkefni með áhugasömum og hugmyndaríkum íbúum.


Erla Lúðvíksdóttir (skipar 2. sæti E-listans í Vogum).
Þorvaldur Örn Árnason (skipar 6. sæti E-listans).