Fatlafól, fatlafól...

...flakkar um á tíu gíra spítthjólastól“, söng Megas fyrir nokkrum árum. Fatlaðir einstaklingar eru fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir. Sumir eiga tíu gíra spítthjólastól og aðrir ekki.


Fötlun snertir alla fjölskylduna
Þann 1. janúar 2011 flytjast málefni fatlaðra frá ríki yfir til sveitarfélaga. Reykjanesbær þarf að vera vel undirbúinn við yfirfærslu málaflokksins. Við hjá Framsókn leggjum mikla áherslu á að vel takist til og höfum skoðað þennan málaflokk vel. Málefni fatlaðra snerta mjög marga í samfélaginu. Fötlun snertir ekki bara hina fötluðu heldur alla fjölskylduna og aðstandendur. Enginn óskar þess að vera fatlaður. Við, sem ekki erum fötluð, þurfum að læra að gera ráð fyrir þeim í samfélaginu, viðurkenna sjálfstæði þeirra og getu til að stjórna eigin lífi.


Sjálfstæði mikilvægt
Stofnanir eins og Kópavogshæli, eru til að mynda börn síns tíma. Nú eiga fatlaðir rétt á eigin heimili og einkalífi. Sambýli og stofnanir heyra að mestu sögunni til. Búsetufrelsi eru sjálfsögð mannréttindi hið sama gildir um notendastýrða þjónustu. Með notendastýrðri þjónustu getur fatlaði einstaklingurinn valið hverjir það eru sem annast hann; eða „ ráðið og rekið“ eins og sagt er í „bransanum“. Þetta eru sömuleiðis sjálfsögð mannréttindi og tryggir sjálfstæði hvers einstaklings. Að hinn fatlaði hafi eitthvað um það að segja hver annast hann, að honum líði vel með manneskjunni og sé sáttur við störf hennar og framkomu.


Varðveitum mannauðinn
Við í Framsókn viljum tryggja að við yfirfærsluna verði endurmenntun starfsfólks tryggð. Það er einnig algert lykilatriði að mannauðurinn, sem skapast hefur á þessu sviði á undanförnum árum, varðveitist. Þ.e. að þekking, reynsla og menntun glatist ekki heldur haldi áfram að þróast og vaxa. Í þjónustusamningnum sem gerður verður við ríkið verða að vera skýr endurskoðunarákvæði, þ.e. sem snerta bæði tekjustofn og hugmyndafræði.

Framsókn fyrir okkur öll! X-B!


Silja Dögg Gunnarsdóttir, 2. sæti Framsóknar í Reykjanesbæ