Fallinn með 0,7


Hausinn í sandinum

Eigum við ekki að tala um hlutina eins og þeir eru „hættum að stinga hausnum í sandinn“.
Nú eru kosningar á næsta leyti og spunameistarar sjálfstæðisflokksins spinna sinn vef. Hrun íslensks efnahagslífs hefur gert það að verkum að flestir Íslendingar ræða efnahagsmál af sömu þekkingu og brautskráðir hagfræðingar. Skilningur á tiltölulega flóknum hagfræðihugtökum er orðinn mjög almennur. Hversu lengi ætlar sjálfstæðisflokkurinn að leggja það á borð við vel upplýsta bæjarbúa að allt sé í blóma þegar þeir vita betur.  Fagurgalinn hreykir sér einn á grein. Við vitum að fjárhagsstaða sveitarfélagsins er því miður alls ekki góð þrátt fyrir fagran söng hans.


Þung greiðslubyrði

Samstæðan er mikið skuldsett og stórlega vanmetin ef tekið er tillit til þeirrar skuldbindingar sem felst í leigusamningum við Fasteign hf. Þung greiðslubyrði er framundan ef ekki tekst að semja við fjármálastofnanir um endurfjármögnun skulda. Eignir samstæðunnar eru einnig stórlega ofmetnar en meðal eigna er meðal annars færð skuldabréfakrafa á hendur Geysi Green Energy, gjaldþrota fyrirtækis, sem með síðustu gjörningum á að færa yfir á Magma, erlends skúffufyrirtækis með óþektu eignarhaldi, vegna sölu á eignarhluta í HS orku. Mikil óvissa ríkir um verðmæti þessarar skuldabréfaeignar og undirliggjandi veða og benda endurskoðendur reikninganna sérstaklega á þetta atriði í skýringum með ársreikningnum.


Falleinkunn í greiðsluhæfni

Greiðsluhæfi sveitarfélagsins er heldur ekki burðugt en veltufjárhlutfallið er 0,7 sem þýðir að veltufjármunir duga bara fyrir 70% af skammtímaskuldum. Eðlilegt viðmið í öllum skilningi er að þetta hlutfall sé yfir einum. Annað gefur til kynna hugsanlegan greiðsluhæfisvanda. Eigi þetta reikningsdæmi að ganga upp þarf spilaborgin að standa óhrunin. Staða bæjarsjóðs leyfir engin frávik frá bjartsýnustu spá um afkomu næstu ára. Kjósendur þurfa ekki annað en að rýna aðeins í vitnisburð valdatíðar sjálfstæðisflokksins eins og hann birtist í ársreikningi Reykjanesbæjar fyrir árið 2009. Tölurnar tala sínu  máli.
Sjálfstæðisflokkurinn er komin í þrot bæði hugmyndafræðilega sem og fjárhagslega. Heldur sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ virkilega að það sé ennþá árið 2007, þegar menn eyddu langt um efni fram á meðan að bilið á milli ríkra og fátækra breikkaði.


Þjálfaranum er vikið ef hann nær ekki tilskildum árangri

Viðskiptalíkan góðærisins sem fólst í því að fá allt að láni er liðinn. Græðgin, tálsýnin og fagurgalinn nær alveg nýjum víddum þegar frambjóðendur sjálfstæðisflokksins reyna að bera það á borð við bæjarbúa að staða bæjarsjóðs sé góð! Í fyrirtækjarekstri tíðkast að láta framkvæmdarstjóra víkja ef hann nær ekki tilskildum árangri, hluthafar skipta út stjórn í félögum ef árangurinn er ekki viðunandi, þjálfara er hiklaust vikið frá ef hann nær ekki settum markmiðum.  Við sjáum þessa aðferðafræði í verki alls staðar í þjóðfélaginu. Sjálfstæðismenn hafa setið í meirihluta í bæjarstjórn undanfarin ár og staðan er langt frá því að vera viðunandi. Breytinga er þörf og það er aðeins á valdi kjósenda að knýja þær fram.


2010 ekki 2007

Tölum um hlutina eins og þeir eru. Tölum tæpitungulaust án þöggunar og horfumst í augu við raunveruleikann. Árið 2007 er liðið og nýtt og fallegt ár, árið 2010 er tekið við, ár raunveruleikans, gagnsæis og fjölskyldugilda. Það er löngu orðið tímabært að setja sjálfstæðisflokkinn í salt og hefja uppbyggingu; uppbyggingu sjálfbærs samfélags sem stendur undir sér.

Gunnar Marel Eggertsson,

oddviti VG í Reykjanesbæ.