Enn af hálfvitum í Reykjanesbæ!

Ég hef fengið gífurlega góð og jákvæð viðbrögð við grein minni “Búa bara hálfvitar í Reykjanesbæ?” og miðað við viðbrögðin verð ég að svara spurningunni neitandi. Mér er orðið það nokkuð ljóst að íbúar Reykjanesbæjar vilja breytingar og heiðarleika inn í stjórn bæjarins. Fólk úr öllum flokkum hefur haft samband við mig og þakkað mér fyrir greinina, við ykkur segi ég: það var ekkert að þakka, þetta eru bara staðreyndir málsins reifaðar á einfaldann hátt.

Hnýpinn bær
Það er mjög illa komið fyrir bænum okkar. Við erum komin að fótum fram, eignalaus, skuldug og atvinnuleysi gífurlegt. Fólk horfir suður með sjó og skilur ekki hvað við erum stöðugt að bíða eftir því að töfralausnir falli af himnum ofan og bjargi okkur. Öll umræða um Reykjanesbæ er neikvæð og leiðinleg og núverandi meirihluti sjálfstæðismanna bendir endalaust á einhvern annan sem orsakavald ógæfu okkar, í stað þess að líta í eiginn barm. En við þurfum ekki að líta langt yfir skammt. Núverandi meirihluti hefur verið með hreinann meirihluta í átta ár og á þeim tíma náð að steypa bænum okkar í glötun. Vandinn er heimagerður og það eru við sjálf, íbúar Reykjanesbæjar, sem þurfum að snúa þróunninni við, ekki einhverjir aðrir.

Snúum vörn í sókn
Við bankahrunið haustið 2008 stigu fram hagfræðingar sem sögðu að ef Lehmans brothers bankinn í Bandaríkjunum hefði ekki fallið þegar hann féll, þá hefði blekkingaleikur íslensku bankanna getað haldið áfram í nokkur ár áfram með enn skelfilegri afleiðingum fyrir Ísland. Skuldirnar hefði orðið margfalt meiri. Það sama á við hér í Reykjanesbæ, ef núvernadi meirihluti verður ekki felldur mun blekkingaleikurinn halda áfram með skelfilegum afleiðingum fyrir bæjarfélagið, og margfalda skuldirnar sem eru gífurlegar fyrir. Í Reykjanesbæ hefur lýðræðið verið fótum troðið í átta ár, nú er tækifæri til að koma aftur á lýðræðislegum vinnubrögðum þar sem hagur bæjarins og bæjarbúa er í forgrunni. Nýtum þetta tækifæri, við fáum ekki annað tækifæri til breytinga fyrr en eftir fjögur ár, og þá gæti það verið of seint.

Áherslur sem skipta máli fyrir bæjarbúa
Eitt aðaláherslumál Samfylkingarinnar er að næsti bæjarstjóri Reykjanesbæjar verði fagráðinn. Hann verði ekki einn af kjörnum fulltrúum bæjarins heldur verði ráðin hæf manneskja til verksins. Það verður ráðin manneskja sem kann að reka bæjarfélag af þessari stærðargráðu, og viðkomandi verður ekki í aukavinnu sem stjórnarmaður í fyrirtækjum úti í bæ sem sveitafélagið Reykjanesbær á jafnvel í samskiptum eða viðskiptum við. Þannig er komið í veg fyrir að einn aðili geti setið beggja vegna borðisins. Eða eins og vinnubrögðin hafa verið í tíð núvernadi, og vonandi fráfarandi meirihluta, að einn og sami maðurinn hafi setið á fundum sem hagsmunaaðili bæjarins, þar sem t.d. eignir bæjarins hafa verið seldar til fyrirtækis sem sami maður er stjórnarmaður í. Það, kæri kjósandi, heitir á íslensku hagsmunaárekstur og í versta falli spilling. Hverra hagsmuna var viðkomandi að gæta? Hagsmuna bæjarfélagsins eða hagsmuna einkafyrirtækisins? Dæmi nú hver fyrir sig út frá verkum fráfarandi meirihluta.

Kjósið mig
Ég vil sitja í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og taka til hendinni við að byggja bæinn okkar upp úr rústunum sem hann er orðinn. Einhver kann að segja að líkurnar á því að ég komist í bæjarstjórnina séu hverfandi þar sem ég sé í 8. sæti listans. En ég blæs á slíkar úrtölur, ég er jákvæð að eðlisfari og bjartsýn og finn gífurlegan meðbyr með þeim sem vilja breytta stjórnunarhætti í Reykjanesbæ, ég finn meðbyr með hugmyndum Samfylkingarinnar. Ég hef komist að því síðustu daga að fólk í Reykjanesbæ hungrar eftir breytingum á stjórn bæjarins og fagnar því að fá valkost eins og mig, sem talar tæpitungulaust um hagsmuni okkar allra. Ég hef komist að því að fréttir af hálfvitum í Reykjanesbæ eru stórlega ýktar, hér býr skynsamt fólk sem kýs ekki yfir sig áframhaldandi hörmungar. Þess vegna er góður möguleiki á að ég komist í bæjarstjórn þó ég sé í 8. sæti á lista Samfylkingarinnar. Ef þið viljið breyttar áherslur í bæjarstjórn Reykjanesbæjar þá setjið X við S á laugardaginn og kjósið mig í bæjarstjórnina.

Eini valkosturinn
Eini raunhæfi valkosturinn í kosningunum núna á laugardaginn er að setja X við S. Aðeins þannig tryggjum við breytingar í Reykjanesbæ, aðeins þannig tryggjum við að lýðræðisleg vinnubrögð verði tekin upp í bæjarstjórn Reykjanesbæjar til hagsbóta fyrir alla bæjarbúa. Kæri kjósandi, ég bið um atkvæði þitt á laugardaginn og ég mun næstu 4 árin berjast eins og ljón fyrir hagsmunum bæjarins á hvaða vettvangi sem er með hagsmuni heildarinnar, en ekki fárra útvaldra, að leiðarljósi. Það veit enginn hvar þú setur Xið þitt þegar þú ert einn í kjörklefanum á laugardaginn. Sýndu hugrekki, veldu breytingar til batnaðar fyrir bæinn okkar, veldu mig í bæjarstjórn.


Kristlaug María Sigurðardóttir

er í 8. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ. XS