Endurreisum samfélagið okkar

Kæru íbúar Reykjanesbæjar.

Núna er illa komið fyrir okkur hér í bæ. Hitaveita Suðurnesja komin alfarið í hendur útlendinga þrátt fyrir gefin loforð sjálfstæðismanna þar af lútandi. Fjöldi íbúa skrifaði undir stuðningslista um að ekki skuli selja hitaveituna en það dugði ekki til, hún var seld.

Maður er varla búinn að átta sig á því að Sparisjóðurinn okkar varð gjaldþrota um daginn og stofnfé okkar horfið og enginn vill ræða við okkur stofnfjáraðila. Hver er ábyrgur fyrir þessu öllu saman? Af hverju vill enginn tala við okkur? Hafa menn eitthvað að fela?

Höggin dynja á okkur þessa dagana og það er varla svo að maður þori að lesa blöðin lengur, allar fréttir eru niðurdrepandi og svo virðist sem að sveitarfélagið okkar muni enda eins og Álftanes.

Ég get ekki lengur orða bundist, við þurfum að taka höndum saman og endurreisa samfélagið okkar hér í bæ. Ég treysti ekki lengur þessari bæjarstjórn og vil að við mótmælum og byrjum að breyta hlutunum í rétta átt.Valur Guðmundsson
stofnfjáraðili