Eldfjallagarður

Reykjanesskaginn hefur óumdeilanlega jarðfræðilega sérstöðu á heimsvísu. Á honum má finna nánast allt sem markvert getur talist til jarðfræði, Reykjanes er t.d. eini staðurinn á jörðinni þar sem berlega má sjá hvar úthafshryggur gengur á land með eldsumbrotum og jarðhræringum. Fyrir utan augljósa sérstöðu hans má nefna fjölmargar verðmætar minjar s.s. verbúðarminjar, sel og þjóðleiðir. Þeir sem þekkja það svæði sem tilheyrir sveitarfélaginu Vogum vita að hér má finna margar stórmerkilegar minjar og náttúruperlur. Þar á meðal eru fornar hleðslur s.s. Staðarborg og Pétursborg. Þráinsskjöldur, Hrafnagjá og Keilir eru meðal þeirra fjölmörgu náttúruperla sem eru í landi Voga.


Sérstaða svæðisins felur í sér mikið aðdráttarafl fyrir erlenda jafnt sem innlenda ferðamenn.


Hugmyndin að eldjallagarði á Reykjanesskaga hefur verið í mótun í nokkurn tíma. Fyrirmyndir að slíkum görðum má m.a. finna á Hawaii, þar er ósnortin og einstök náttúran beinlínis söluvara eyjaskeggja enda eru fáir staðir í heimi eftir sem telja má ósnortna. Í eldfjallagarði er lögð áhersla á jarðmyndanir og landslag ásamt lífríki og staðbundnu samfélagi. Hugmyndin að eldfjallagarði á Reykjanesi grundvallast á náttúruvernd samhliða fjölbreyttri annarri nýtingu á auðlindum Reykjanesskagans.


Hugmyndafræðin að baki slíkum garði byggir á samstarfi en ekki eignarhaldi. Þátttakendur í samstarfinu fá ávinning í samræmi við það sem þeir leggja til. Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þess fyrir sveitarfélagið Voga að taka þátt í verkefninu. Vogar hafa áður unnið að tengdu verkefni sem heitir GEO-Camp raungreinabúðir með Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Það verkefni flokkast undir svokallaða fræðaferðamennsku þ.e. hingað koma kennarar og nemendur til þess að nema jarðfræði og tengdar greinar.


Sveitarfélög á Reykjanesskaga hafa falið stjórn Reykjanesfólkvangs það verkefni að vinna að stofnun eldfjallagarðs. Að frumkvæði E-listans sótti bæjarstjórn um aðild að Reykjanesfólkvangi fyrir um 2 árum síðan og tökum við nú þegar þátt í starfi hans að vissu marki.


E-listinn mun halda þessari vinnu áfram en hér er um að ræða verkefni þar sem mikilvægar upplýsingar og efni liggja nú þegar fyrir. Gerðar hafa verið skýrslur og úttektir af sérfróðum mönnum auk þess sem hugmyndavinna hefur verið unnin. Þetta er því raunverulegt verkefni sem ef vel er að málum staðið getur orðið mikilvægur hlekkur í atvinnuuppbyggingu í Vogum.


Með skipulegri kynningu á svæðinu og góðri samvinnu getum við tryggt að fleiri fái notið alls þess sem Reykjanesskaginn og sveitarfélagið Vogar hafa upp á að bjóða og um leið skapað störf og eflt þá atvinnustarfsemi sem fyrir er í sveitarfélaginu.


Setjum X við E og tryggjum þar með að sveitarfélagið okkar verði þátttakandi í þessu spennandi verkefni!Marta Guðrún Jóhannesdóttir, framhaldsskólakennari
Í 5. sæti á E-listanum í Sveitarfélaginu Vogum