Eintóm leiðindi!

Nú er nóg komið af þessari óstjórnlegu bjartsýni og jákvæðni hjá mínum flokkssystkinum. Við vitum það öll að það er bara blekking að lífið sé skemmtilegt og það er gjörsamlega glatað að líta björtum augum fram á veginn. Ég er alveg búinn að átta mig á því eftir að hafa fylgst með þjóðmálaumræðunni að engum er treystandi, allir hafa brotið af sér og flestir eigi að hypja sig. Skuldastaðan okkar er ókljúfanlegt eldfjall og atvinnuleysið botnlaust hyldýpi. Í þessu árferði er ég að bjóða mig fram til starfa í bæjarpólitíkinni. Til að vera í takt við tíðarandann ætla ég að lofa því að hafa ekki gaman af því að vinna að málefnum bæjarbúa en ætla að ganga hnípinn til verks, grautfúll og skömmustulegur en reyna að tussast við að vinna okkur út úr þeim vanda sem við er að etja.


En ég er nú bara að grínast!
Vissulega er verkefnið erfitt sem við stöndum frammi fyrir. Fólk er reitt, pirrað og margir að fyllast vonleysi. Þetta ástand tekur verulega á taugarnar og því er nauðsynlegt fyrir sálartetrið að sjá einhverja ljóstýru í gosmekkinum. Verkefni okkar sem erum að bjóða okkur fram til verka fyrir bæjarfélagið er að sýna fólki fram á að hér sé líf framundan þrátt fyrir erfiða stöðu. Við erum ekki bara að upplifa afleiðingar heimskreppu sem kom sérstaklega hart niður á Íslandi eins og berlega hefur komið í ljós heldur urðu Suðurnesin öll fyrir miklu höggi þegar varnarliðið hvarf á braut og með því nærri 2.000 störf. Hægt var að stoppa tímabundið í götin með góðærinu sem reið yfir allt landið en nú stöndum við berskjölduð frammi fyrir þessu áfalli. Eina leiðin út úr þessum vanda er að efla atvinnulífið og unnið hefur verið að því hörðum höndum að skapa skilyrði fyrir fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum til að hefja hér starfsemi. Á nýafstöðnu Nýsköpunarþingi kom fram að fjöldi fyrirtækja hafa mikinn hug á að byggja upp fjölbreytt og áhugaverð verkefni af öllum stærðum og gerðum hér í Reykjanesbæ og eru mörg þeirra vel á veg komin. Fælum þau ekki frá með því að mála skrattann á vegginn.


Mín nálgun að bæjarmálunum er að vinna af heilindum, skynsemi og á hagkvæman hátt í þágu bæjarbúa. Hæfilega „wild“ en samt þannig að snyrtimennskan sé í fyrirrúmi.


Við saman getum fundið gleðina í sálinni.

Baldur Guðmundsson
skipar 6. sæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ