Einstaklingurinn skiptir máli

Í Reykjanesbæ eru mörg metnaðarfull forvarnarverkefni, sem eiga að bæta samfélagið og styðja við einstaklinga. Sum þeirra eru áberandi og verða til með þátttöku íbúa en önnur eru unnin á bak við tjöldin.

Nýjasta verkefnið er Baklandið sem er sértækt úrræði fyrir börn og unglinga sem njóta stuðnings og þjónustu barnaverndar. Starfsmaður Reykjanesbæjar tekur á móti börnunum eftir skóla. Morgunhaninn er verkefni sem er ætlað að efla skólasókn barna og hefur það tekist ágætlega.

Félagar er nýtt verkefni sem er forvarnarefni handa unglingum gegn kvíða og þunglyndi. Eldra verkefni og þekktara er SOS uppeldisnámskeið sem er foreldrum 2ja ára barna að kostnaðarlausu. Það hefur veitt mörgum ungum foreldrum öryggi að geta sótt námskeið um uppeldi.

Mjög áhugavert samvinnuverkefni í Reykjanesbæ eru samráð og fundir hjá Samtakahópnum. Samtakahópurinn er þverfaglegur aðgerðahópur allra sem koma að vinnu með börnum og ungmennum. Markmið hópsins er að hafa yfirsýn yfir óæskilega þróun í einstökum skólahverfum og bregðast við með aðgerðum eftir aðstæðum. Hópurinn fundar reglulega allan veturinn og grípur inní með aðgerðir þar sem við á.

Alls staðar í kringum okkur er fólk að leggja sig fram í þágu samfélagsins og vill skila góðum verkum í þágu fjölskyldna. Einn mikilvægur hópur í forvörnum eru fagmenn í leik- og grunnskólum sem vinna mikið forvarnarstarf alla daga við að efla sjálfsmynd nemenda. Barn eða unglingur með sterka sjálfsmynd er besta forvörnin.

Það er mikilvægt að verkefni eins og: Félagar, SOS uppeldisnámskeið, Morgunhaninn, Baklandið, samtakahópurinn og fleiri nái að blómstra næstu misseri. Sjálfstæðisflokkurinn vill halda áfram að styðja við góð verkefni.


Ingigerður Sæmundsdóttir,

höfundur er grunnskólakennari og skipar 8. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ