Ég má ekki kjósa þá sem ég vil?

Ágæti lesandi, laugardaginn 29.maí ætlum við að kjósa okkur fólk til þess að ráða yfir sveitafélögum landsins.

Eins og alla aðra kosningadaga ætla ég að vakna, koma mér almennilega á fætur, glugga í blaðið og rölta á kjörstað. Þegar komið er inn í kosningaklefann vandast málið; fyrir liggja bókstafir sem standa fyrir þá pólitísku lista sem bjóða sig fram til sveitastjórnar og ég má bara setja ,,x” fyrir framan einn bókstaf.

Stefnumál flokkanna eru öll frábær, allir vilja bæta bæinn minn! Offramboð er af fólki sem vil gera betur í atvinnu og fjölskyldumálum, bæta hag nemenda, sinna umhverfinu og gera bæinn minn að betri stað til að búa í, gæti varla verið betra! Áherslumunur er vissulega milli framboða en maður veltir sér oftast ekki mikið upp úr því, við höfum miklu meiri áhuga á því að vita hverjir skipa viðkomandi lista. Þekki ég þetta fólk, treysti treysti ég því til að vinna vel fyrir sveitarfélagið mitt?

Málið verður svo enn flóknara þegar Jóna frænka er í 3. sæti á Z-listanum og Nonni nágranni í því 4. á Q-listanum! Ég treysti þeim báðum en þau fóru á sitthvorn listann , hvað á ég að gera?

Þetta er vel skiljanlegur og mannlegur hugsunarháttur sem ég ætla að leyfa mér að segja að hann eigi við í gífurlega mörgum sveitafélögum vítt og breitt um landið, þar sem málefnin eru fá, deilurnar litlar og fólkið þekkist vel. Sjálfur er ég íbúi í sveitafélaginu Garði, þar bjóða fram D-listi Sjálfstæðismanna og óháðra, N-listi nýrra tíma og L-listi allra Garðbúa.

Ég skipa 7.sæti á L-listanum í Garði og get því seint talist hlutlaus aðili þegar kemur að komandi sveitastjórnarkosningum en núverandi kosningafyrirkomulag, hér eins og annarstaðar, er algjörlega óviðunandi. Ástæðurnar eru margar, pólitík í litlum bæjarfélögum er brothætt. Í harðri kosningabaráttu er auðvelt að særa fólk og það gerir litlu samfélagi ekkert gott þegar frumkvöðlar sveitafélagsins ná engan veginn saman.

Listaframboð býður svo óhjákvæmilega upp á meirihluta og minnihluta í bæjarstjórn. Í sjö manna sveitastjórn geta fjórir einstaklingar ráðið sveitafélaginu og sópað öllum hugmyndum minnihlutans út af borðinu. Með flokkakerfi og meirihlutaræði er því helmingur sveitastjórnarinnar og helmingur atkvæða íbúa hunsaður með öllu. Þetta er ekki bara óvirðing við okkur íbúa heldur alveg gífurlega óskilvirkt og vannýting á góðu fólki.

Staðreyndin er sú að við kjósum fólkið sem við þekkjum vel og treystum. Í sjálfu sér er það mjög eðlilegt og ekki hægt að ætlast til annars en að við kjósendur fylgjum okkar sannfæringu og veljum þá menn og konur sem við viljum að stjórni okkar bæ.

En ég má ekki kjósa þá sem ég vil!!

Gunnar Hörður Garðarsson heiti ég og hef búið alla mína ævi í Garði. Ég þekki hvern einn og einasta frambjóðanda sem er að bjóða sig fram núna á laugardaginn en kosningakerfið leyfir mér ekki að velja þá einstaklinga sem ég tel að væru hæfastir til þess að fara með völdin!

Ágæti lesandi þú átt að geta kosið þá einstaklinga sem þú treystir og vilt færa þau völd og þær ábyrgðir sem fylgja störfum sveitastjórnar. Flokkakerfið er gallað fyrirbæri sem við getum vel verið án og nú er tækifærið. Ég berst fyrir persónukjöri í Garði, ég berst fyrir bættu samfélagi, ég berst fyrir því að þú getir kosið eins fullkomlega rétt og þú óskar!

Hættum að bjóða fram lista, nýtum okkur stjórnarskrárbundinn rétt okkar um sjálfstæði sveitafélaga til að haga okkar sveitarfélagi eins og okkur sýnist best!

X-L fyrir persónukjör!

Gunnar Hörður Garðarsson – Stjórnmálafræðinemi
Frambjóðandi á L – Lista allra Garðbúa.