Ég er gull og gersemi

Í gærkvöldi datt enn einn bæklingurinn inn um hurðina hjá mér.  Meðmæli  fulltrúa erlendra aðila sem lengi hafa ætlað sér að hefja starfsemi í bænum okkar.  En lítið gerst.
Þeir telja það nú skyldu sína að mæra þann mann sem þeir helst vilja vera í samskiptum við.  Mér fannst  skrýtið að þegar um  uppbyggingu atvinnulífs í bænum okkar  er fjallað,  vantaði alveg forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem þó eru starfandi i bænum.  Það  það vantaði talsmenn grunnstoða samfélagsins.  Þeirra sem hér hafa og reka fyrirtæki sín hvernig sem árar.  Einu menninir sem meðmælin gátu gefið voru fulltrúar erlendra aðila, og utanbæjarmenn.

Það vakti einnig athygli mína að bæklingurinn sem fjallaði um að koma „hjólum atvinnulífsins í gang“ var prentaður í öðru bæjarfélagi.  Þannig er það með bæklinga bæði bæjarins og flokksins.  Orðum fylgja efndir.
Auðvitað verður maður að viðurkenna  að maður hefur smá áhyggjur eftir lestur slíks bæklings.  Hugurinn leitar út fyrir landsteinanna til að finna viðlíka fyrirmyndir eða hugmyndafræði.  Fyrstu nöfnin sem koma upp í hugann eru þeir félagar Kim Il Sung, og Ayatollar um allan heim.  Þeir persónugera hlutina, og vilja vera einræðisherrar.  Virkar frekar sjúkt finnst mér.

Þrátt fyrir slæma stöðu, og kreppu verður maður þó að vona og vera bjartsýnn.   Bjartsýnn á að íbúar Reykjanesbæjar séu ekki svo skyni skroppnir að átta sig ekki á þeim veruleika sem við blasir.  Sá veruleiki er að fæstir þeirra sem áður sátu á lista bæjarstjórans sitja þar lengur.  Þeir gáfust upp á einræði bæjarstjórans.  Og nýjar dúkkur hafa verið valdar í staðinn, dúkkur sem munu hlýða hverju kalli hins milkla foringja.  Það hafa þeir sýnt nú þegar.

Kosningar  eru leið lýðræðisins til að velja þá til ábyrgðarstarfa er teljast þess verðugir.  Þá er raðað á lista fjölda manns er telja sig hafa eitthvað til málanna að leggja og tilbúnir eru til þjónustu fyrir bæjarbúa. Sjálfstæðismenn telja að einn maður sé svarið. Hinn mikli foringi sem öllu ræður.

Mig langar að enda þennan litla pistil á vísu sem Sölvi Helgasson orti um sjálfan sig, og fannst hana vanta í bækling utanbæjarmannanna.  Þá hefði fullkomnun fáránleikans verið náð.  Og hef hana feitletraða í anda bæjarstjórans!!

„Ég er gull og gersemi
Gimsteinn elskuríkur
Ég er djásn og dýrmæti
Drottni sjálfum líkur“Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson.