E-listinn stendur fyrir ábyrga og trausta fjármálastjórn

Framfarasjóður Sveitarfélagsins Voga stóð í 1.369 milljónum í árslok 2009 eins og fram kemur í ársreikningi sem birtur hefur verið á vefsíðu sveitarfélagsins. Íbúar geta sannreynt þetta sjálfir og þurfa því ekki að hlusta á endurteknar rangfærslur oddvita H -listans.


Söluhagnaður hlutabréfa í Hitaveitu Suðurnesja var 1.256 milljónir, og hefur höfuðstóllinn því ekki verið skertur.

Sveitarfélagið hefur nær undantekningarlaust verið rekið með halla af reglubundinni starfsemi, með fáum undantekningum síðan 2002. Eins og E-listinn hefur margoft bent á, meðal annars á tveimur opnum íbúafundum um fjármál sveitarfélagsins, þá kemur sá halli að hluta til af því að í sveitarfélaginu eru hlutfallslega mjög mörg börn. Börn sem m.a. lögum samkvæmt eiga tilkall til ákveðinnar þjónustu. Lögð hefur verið áhersla á að þessi þjónusta sé mjög góð. Við erum stolt af því.


Einnig kemur hallinn til vegna hárrar leigu sem sveitarfélagið greiðir fyrir fasteignir sem voru seldar í tíð H-listans. Leigan ein og sér var rúmar 120 milljónir á síðasta ári.

Ábyrg fjármálastjórn sveitarfélags felur það í sér að lögbundin þjónusta og þau verkefni sem sveitarfélagið ákveður að ráðast í séu fjármögnuð á ábyrgan hátt. Síðan árið 2007 hefur sveitarfélagið ekki tekið nein lán. Hvorki til rekstrar né framkvæmda, heldur nýtt vexti og verðbætur af Framfarasjóðnum. Ef vextir og verðbætur hefðu ekki  verið nýtt til rekstrar og framkvæmda, hefði þurft að segja upp fjölda starfsmanna, og líklega taka lán að auki. Það er ekki ábyrg fjármálastjórn.

Það er heldur ekki ábyrg fjármálastjórn að selja eignir sveitarfélagsins, nýta allan söluhagnaðinn í rekstur og skuldbinda sveitarfélagið, og þar með íbúana, til að greiða háa leigu til 30- til 50 ára. Skuldbinding sem nú nemur 1,5 milljarði króna er að stórum hluta bundin erlendri mynt. Það gerði H-listinn á síðasta kjörtímabili.

Það var heldur ekki ábyrg fjármálastjórn að taka kúlulán upp á 200 milljónir á síðasta kjörtímabili, með gjalddaga á þessum kjörtímabili. H- listinn gerði það og treysti einfaldlega á að það myndu finnast peningar seinna til að greiða.

Versta ákvörðun í fjármálum sveitarfélagsins var að selja skólann og íþróttahúsið, nýta söluhagnaðinn í reksturinn og gera langtímaleigusamninga við EFF og Búmenn sem eru sveitarfélaginu mjög þungur baggi. H-listinn stóð fyrir þeim ákvörðunum.

Besta ákvörðun í fjármálum sveitarfélagsins var að selja hlutabréf í Hitaveitu Suðurnesja og setja söluhagnaðinn á bankabók og nýta vexti og verðbætur til að veita góða þjónustu, greiða niður lán og framkvæma til hagsbóta fyrir íbúana. E- listinn tók þá ákvörðun.

Fjármálum sveitarfélagsins hefur undanfarin 4 ár verið stýrt af E-listanum með ágætum árangri í mesta ólgusjó sem gengið hefur yfir íslenskt samfélag.

H stendur fyrir auknar skuldbindingar, háar leigugreiðslur og kúlulán.
E stendur fyrir ábyrga og trausta fjármálastjórn án lántöku.

Hörður Harðarson bæjarfulltrúi skipar 1. sæti E-listans í Vogum