Draumar og tálsýnir

Ég hef undanfarið orðið var við það að sjálfstæðismenn tala mikið um drauma og hamingju þessa dagana sem er sérstök stefnubreyting hjá þeim. Áður fyrr töluðu menn um framkvæmdir og nauðsyn þess að bæjarsjóður fjárfesti í fasteignum, lóðum og Helguvík, einmitt vegna þess að það væru til svo miklir peningar. Núna eru peningarnir farnir og því verður að tala um eitthvað annað.


Flokkur frjálshyggju, reynir þannig að breyta um ímynd og fela gömlu gildin sem tryggði þeim sigur í síðustu kosningum. Nú vilja menn fela slóðina.


Þetta byrjaði jú fyrst með ævintýrinu um stálpípugerðina í Helguvík og brotnum loforðum um að hefja ekki framkvæmdir í Helguvík fyrr en að fjármögnun og tryggingar væru tryggðar. Það sama gerðist með íþróttaakademíuna, verkefni sem lofaði góðu en var því miður ílla unnið og dæmt til að mistakast. Kappsemi sjálfstæðismanna hefur því miður blindað mönnum sýn og allt tal um að gott sé að fjölga íbúum og öllu má kosta til hefur svo sannanlega komið bæjarfélaginu í koll.


Eftir standa tómar íbúðir, offjárfesting í lóðum, götum og fyrirsjáanleg vandamál um ókomin ár. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ hefur tæmt sjóði Reykjanesbæjar og sólundað eignum á þann veg að eftir situr sveitarfélag sem með veikum mætti getur verndað velferðakerfið sem byggt var upp á mörgum áratugum. Öll loforð um aðstoð við fjölskyldur og Frístundaskóla hafa verið brotin.


Nú tekur ekki betra við, sparisjóðurinn gjaldþrota og samfélagið beygt og bugað og öllum ljóst að hér í bæ hefur ekki verið vel  staðið að hlutunum Er ekki kominn tími til að sjálfstæðismenn horfi í spegil og biðjist afsökunar, þurfum við ekki sérstaka rannsókn á vinnubrögðum meirihlutans hér í bæ.


Forystumenn flokksins hafa verið óvandaðir í fjárfestingum, sýnt af sér dómgreindarleysi og vanhæfi með því að blanda saman eigin hagsmunum við hagmuni sveitarfélagsins og tengdra fyrirtækja. Flokkurinn hefur umbunað sínum flokksmönnum hollustuna og brotið þannig vandaða stjórnsýslu og skaðað hagsmuni og ímynd sveitarfélagsins. Flokkurinn hefur misnotað aðstöðu sína og óspart notað starfsmenn bæjarins til að bæta ímynd flokksins á kostnað bæjarbúa.


Þetta sést vel á síðustu dögum fyrir kosningar þar sem bæjarstjóri boðar íbúafundi, heldur ráðstefnur og gefur út bæklinga, allt á kostnað bæjarbúa. Bæjarbúar eru nú að kosta kosningabaráttu sjálfstæðismanna.


Nú er nóg komið, draumar og tálsýnir duga ekki lengur.


Friðjón Einarsson
1.sæti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ