Barnsleg einfeldni oddvita „Lista Árna Sigfússonar“

Flest eigum við sem erum foreldrar minningar um hjálpsemi barnanna okkar á ungaaldri. Þegar brosandi andlit hafa birst í dyragátt svefnherbergisins, og viljað vekja pabba og mömmu til að sýna hve dugleg þau voru á meðan foreldranir sváfu. Stundum hafði hveitinu verið sáldrað yfir nýþvegin eldhúsgólfin, eða betrumbætt málningarvinna foreldrana frá deginum áður. Minningar sem í huga okkar eru dýrmætar sökum þess að að þar voru börn á ferð, sem gerðu sér ekki alveg grein verkum sínum.


Nú um helgina birtist viðtal við oddvita „Lista Árna Sigfússonar“ eins og frambjóðandinn Björk Þorsteindóttir velur að kalla lista þann sem við flest höfðum haldið að væri listi sjálfstæðismanna. Umræðuefnið voru óstaðfestar fréttir um að HS Orka væri nú að komast að nánast öllu leyti í eigu Magma Energy. Oddvitanum fannst það fagnaðarefni, og sagði það auka líku til þess framkvæmdir við Álver í Helguvík færu í fullan gang strax í júní. Ekki í fyrsta sinn sem oddviti „Lista Árna Sigfússonar“ lætur út úr sér væntingar sem enginn innistæða er fyrir.


Oddvitanum ætti eftir langa reynslu af stjórnunarstörfum einkafyrirtækja og sveitarfélaga að vera ljóst að til að verkefni gangi upp þarf undirbúningur þeirra að vera í lagi. Að menn séu sammála um hvert stefnt sé. Oddvitanum ætti nú þegar að vera fulljóst að grunnforsenda fyrir frekari stækkun og útþenslu HS Orku, hangir mjög saman við hverjar framtíðarhugmyndir til að mynda Grindvíkinga og Hafnarfjarðar eru nýtingu jarvarma úr landi þeirra.


Grindavíkurbær hefur markað sér auðlindastefnu, stefnu sem í meginatriðum gengur út á að hluti þeirrar orku sem úr landi þeirra er unnin verði nýtt í þágu atvinnuuppbyggingar í Grindavík. Hafnarfjarðarbær ræður yfir landinu í Krýsuvík, sem HS Orka hefur augastað á til nýtingar. Orkustofnun vinnur að úttekt á jarðhitasvæðinu á Reykjanesi, og hvernig framtíðarnýtingu þar skuli háttað. Var oddvita „Lista Árna Sigfússonar“ ljóst hver vilji og niðurstaða þessara aðila var áður en hann lýsti því yfir að hér færi allt á fullt strax í næsta mánuði. Svo virðist ekki vera.


Það er dapurt að verða vitni að því að þeir sem maður hafði haldið að væru komnir til vits og ára átta sig ekki á hverjar afleiðingar verka þeirra eru, eða treysti á að þeim verði fyrirgefið sem ungabörn væru. Napur veruleikinn blasir nú við. Verk meirihluta sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar er nú að koma í ljós. Orkunýting og mikill hluti atvinnuuppbyggingarstefnu sveitarfélaganna á Suðurnesjum næstu 45 ár að minnsta kosti virðist vera að komast í hendur skúffufyrirtækis í Svíþjóð. Nýting og hagnaður af jarðhitaauðlindar á Reykjanesi er nú í höndum erlendra fjármálsspekúlanta. Hvað verður næst nái „ Listi Árna Sigfússonar“ að halda hér völdum önnur fjögur ár í viðbót?. Er ekki nóg komið?


Með kveðju
Hannes Friðriksson