Atvinnuþróun í Reykjanesbæ

Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ( Kadeco) hefur unnið þrekvirki í atvinnumálum í Reykjanesbæ og eiga starfsmenn þar stóran hlut að máli.

Glæsileg uppbygging gamla varnarsvæðisins er til fyrirmyndar og er litið til þessa svæðis sem framtíðar atvinnusvæði á Suðurnesjum.

Í þessu sambandi er þó vert að benda á þá staðreynd að ríkið er sá aðili sem stendur að baki Kadeco en ekki meirihlutinn í Reykjanesbæ.

Því kemur það sífellt á óvart að Sjálfstæðismenn hamri á því stanslaust að ríkið sé ætið á móti öllu í Reykjanesbæ /Suðurnesjum og á sama tíma hrósa þeir atvinnusköpun á Ásbrú.

Því miður er það svo að atvinnuþróun í Reykjanesbæ er af skornum skammti þegar litið er til verka meirihlutans og er óhætt að segja að miðað við aðrar landshluta stöndum við höllum fæti. Ástæðan er einföld, héðan sækja menn ekki um styrki til atvinnusköpunar því enginn sinnir því starfi á Suðurnesjum.

Við þurfum að efla atvinnuþróun með ráðningu atvinnufulltrúa og styðja við starfsemi einstaklinga og lítilla fyrirtækja.

Samfylkingin hefur stutt dyggilega við atvinnuþróun á Suðurnesjum og nægir að benda á gagnaverið og álverið í Helguvík. Það er ekki síst verk Samfylkingarmanna að atvinnusköpun hér í bæ er til staðar en betur má ef duga skal. Látum ekki birgja okkur sýn einu sinni enn með gylliboðum um stórvirki í atvinnumálum, afrakstur sjálfstæðismanna er 16% atvinnuleysi...

Friðjón Einarsson
1.sæti Samfylkingin í Reykjanesbæ