Atvinnumálin í Odda

Samhliða hefðbundnu loforðaflóði D-listans um ný störf sjáum við verkin tala. Í orði eru atvinnumálin sett á oddinn en verkin eru hinsvegar send í Odda í Reykjavík sem sér um að prenta kynningarefni D-listans rétt eins og megnið af öllu því kynningarefni sem Reykjanesbær gefur út. Þarna eru störf sem skapa mætti og verja ef menn vildu reyna að efla atvinnulíf í bæjarfélaginu.
 
Sveitarfélögin verða að axla ábyrgð og hlúa að þeim sprotum sem kynnu að dafna ef hlúð væri að umhverfi smárra og meðalstórra fyrirtækja. Atvinnumál og velferð eru samofin í eitt enda velferðarkerfið stórt net vinnustaða sem eru samfélaginu mikilvægir og aldrei mikilvægari en einmitt á tímum sem þessum.
 
Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill efla Virkjun og stuðning þar við atvinnuleytendur og aðstoð í leit að úrræðum og atvinnusköpun. Hlúum að því smáa og verjum það sem er til staðar samhliða því sem við sækjum ný mið til eflingar sjálfbærs atvinnulífs. Ferðaþjónustan hefur vaxið ört á landsvísu en sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa ekki náð til sín nógu stórum hluta af þessum vexti. Þarna eru tækifæri, það þarf bara að sjá þau, viðurkenna þau og vilja til þess að nýta þau. Strandveiðar hafa farið vaxandi og heimildir auknar á milli ára. Til lengri tíma litið þarf að höggva á hnúta kvótakerfisins, fyrna eða innkalla veiðiheimildir, og úthluta þeim í réttlátara kerfi sem aftur skapar tækifæri til nýliðunar í sjávarútvegi.
 
Kæri kjósandi, atvinnumálin á oddinn og x við V fyrir velferð á viðreinsnartímum.
 
Gunnar Marel Eggertsson,
oddviti VG í Reyknanesbæ.