Atvinnumálin eru númer eitt

Í kosningunum á laugardag verður kosið um velferð og hag íbúa. Hvað skiptir íbúa Reykjanesbæjar mestu. Í umfjöllun sjónvarpsmiðlanna um kosningarnar í Reykjanesbæ, þar sem vegfarendur voru spurðir um hvað yrði kosið á laugardag voru atvinnumálin lang oftast nefnd. Þessu hef ég einnig kynnst í daglegu spjalli mínu við íbúa og kjósendur í Reykjanesbæ.


Atvinnutækifærin
Núverandi meirihluti sjálfstæðismanna hefur unnið hörðum höndum, undir forystu Árna Sigfússonar bæjarstjóra við að skapa atvinnu og tryggja þannig velferð fyrir alla íbúa Reykjanesbæjar. Nýlegur atvinnubæklingur, sem gefin var út í vikunni, sýnir að forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem hafa sett upp fyrirtæki sín eða eru að hefja starfsemi í Reykjanesbæ, tala um að hvatning og framganga Árna hafi hjálpað þeim mikið við að setja hér upp sín verkefni. Verkefni á borð við Gagnavörsluna, HBT, kvikmyndaverið á Ásbrú, kísilverksmiðja, gagnaver, álver, heilsusjúkrahús, flugþjónustuverkefni og fl. eru verkefni sem hafa valið Reykjanesbæ sem sinn áfangastað.


Uppbygging til framtíðar
Almennt er talið að mestu tækifærin til atvinnusköpunar séu einmitt hér í Reykjanesbæ. Þessi verkefi væru öll þegar farin af stað ef ekki væri fyrir fulltrúum stöðnunar í núverandi ríkisstjórn, sem hafa hvað eftir annað sett upp hindranir. Reykjanesbær hefur hinsvegar náð að sýna þrautseigu og yfirstígið þær. Er nú svo komið að næsta skref er gríðarleg uppbygging stórra atvinnuverkefna á svæðinu, sem svo aftur hjálpa þjónustufyrirtækjum og verktökum að byggja sína starfsemi áfram upp. Þegar allt er talið er um að ræða þúsundir starfa og það flest vel launuð störf. Þetta skiptir gríðarlegu máli fyrir framtíð okkar bæjarfélags.


Ég vona góði kjósandi að þú styður okkur í baráttunni fyrir vel launuðum störfum og við saman byggjum upp sterkt atvinnulíf í Reykjanesbæ.


Björk Þorsteinsdóttir
skipar 7. sæti á D-lista sjálfstæðismanna