Atvinna er grundvöllur velferðar

Það er til lítils að tala um öryggisnet og stuðning við þá sem minna mega sín ef grunnstoðir atvinnulífsins eru ekki traustar. Eitt af mikilvægustu hlutverkum stjórnmálamanna er að hlúa að atvinnulífinu og búa því sem best skilyrði. Þannig aukum við verðmætasköpun og tekjur fyrir bæinn.


Skatttekjur eru grundvöllurinn fyrir því sem við viljum gera á sviði bæjarmála og jafnframt undirstaðan fyrir velferð og samfélagslegri þjónustu við íbúa bæjarins. Auðveldasta lausn stjórnmálamannsins á fjárskorti er að auka endalaust skattheimtuhlutfall eða önnur gjöld á bæjarbúa, en hætt er þó við að slíkt verði skammgóður vermir.


Með þeim góða grunn og vilja, sem lagður hefur verið í atvinnuuppbyggingu á svæðinu höfum við fjárfest í framtíðinni. Mikilvægt er að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ, undir forystu Árna Sigfússonar, fái áfram brautargengi til að klára þau verkefni sem þegar eru farin af stað, því þannig getum við stuðlað að aukinni atvinnu, betur launuðum störfum, auknum tekjum í bæjarsjóð og betri velferð.


Með þínum stuðningi mun verkið klárast!


Ragnheiður Sif Gunnarsdóttir
Frambjóðandi X-D í Reykjanesbæ