Að rækta garðinn sinn er lækning

Ég geri ráð fyrir að flestir þenkjandi finni í sálu sinni djúpstæða reiði og vonbrigði vegna þeirrar örlaga sem íslenskt þjóðfélag stendur frammi fyrir í kjölfar græðgisvæðingar og siðferðilegs hruns sem við höfum orðið fyrir. Þegar náttúruöflin síðan ganga til liðs við hrunið og spúa eimyrju yfir lífsstarf margra sem byggja suðausturhluta landsins finnur maður til vanmáttar en samtímis hluttekningar vegna aðstæðna þessa fólks, sem þar horfir á eyðileggingu þess sem því var kærast. Spurningin er hvað hægt er að gera að gera við slíkar aðstæður.

Það er eðli þessarar þjóðar að gefast aldrei upp. Á myrkratímum miðalda héldu menn andlegu atgervi með að minnast bókmenntaafreka Íslendingasagna og hafa fyrir munni sér að Gunnar á Hlíðarenda hafi þó getað stokkið hæð sína í öllum herklæðum. Slíkt gat læknað brotna þjóð.

Það er all þungt hljóðið í okkur Suðurnesjamönnum sem þurfum að horfast í augu við mikið atvinnuleysi og endalausan missi af réttindum sem talist hafa sjálfsögð fram til þessa. Lokun skurðstofu á dögunum var gjörningur sem væntanlega á eftir að hafa mikil áfrif á samfélag þetta í framtíðinni. Árangurslausar voru allar tilraunir til að hindra að hann næði fram að ganga, enda gerður í skjóli hagræðingar og forgangsröðunar á heilbrigðisþjónustu. Flytja á fjármagn til heilsugælsunnar til að hún nái betur að sinna sínu hlutverki. Megi slíkt takast. Það er til lítils að berjast við öfl sem eru manni voldugri bæði náttúruleg og mannleg, frekar verður að byggja upp af þeim efniviði sem til staðar er hverju sinni. Þannig verða bændur gossvæðanna að sópa burtu ösku eða vona að hún kæfi ekki allan gróður og bíða af sér hretið. Á sama hátt verðum við Suðurnesjamenn að finna okkar leiðir sem draga úr sársauka þess sem orðið er og reyna líta fram á vegin í von um betri tíð.

Þá ritari kom í bæ þennan fyrir 27 árum þótti bærinn bera titilinn “ljótasti bær landsins” með nokkru sanni, enda einhverskonar sambland herstöðvahugmyndafræði og borgarasamfélags þar sem andstæður tókust á oft á tímum. Að rækta sjálfan sig með menntun og umhirðu á nánasta umhverfi var ekki almennt ríkjandi sjónarmið, enda auðveldara að sækja skjótfengnari auð til hervæðingarnar. Samfélagið nýtti sér þessa návist og leit á hana sem sjálfsagða. Samtímis án þess að menn kannski gerðu sér grein fyrir brenglaðist aðeins hið siðferðilega mat íbúanna og réttindastaða gagnavart sameiginlegum sjóðum samtímis.

Það var því ærið verkefni fyrir núverandi bæjarstjóra að reyna snúa þessum viðhorfum til hins betra. Þannig hefur stefna síðustu bæjarstjórna fyrst og fremst haft að markmiði að hlúa að menntun, umhverfi og fjölskyldugildum. Öll verkin miða að þessu. Umhverfinu hefur verið breytt í aðlaðandi bæ sem gaman er að sýna ókunnum.

Þeir lýsa yfir undrun sinni. Að hjóla strandlegjuna og upplífa fuglalíf á Fitjum er kafli útaf fyrir sig. Byggingar eru ekki lengur án viðhalds heldur fá ný andlit.Hlúð hefur verið að menntun, menningu og þeim þáttum sem mikilvægir eru fyrir mannvænleg fjölskyldugildi oft á tímum með frumkvöðlastarfi.


Mikilvægast nú er að halda uppi þessu græðandi starfi og þeirri ímyndarsköpun sem það hefur leitt til. Að fá til sín sinn skerf úr sameiginlegum sjóði er eins erfitt og áður, því það tekur væntanlega kynslóð til að átta sig á að herinn er farinn og Suðurnesjamen verða að treysta á sjálfa sig. Á meðan verðum við að nýta öll þau tækifæri sem við eygjum til að viðhalda þeirri uppbyggingu og fegrun sem hér hefur átt sér stað að undaförnu.

Ritari vill beina því til allra íbúa Reykjanesbæjar að áhrifamikil lækning við reiði og vonbrigðum er að rækta sinn eigin garð. Við skulum hlúa að okkur sjálfum með slíkri vinnu. Efniviðurinn er ótakmarkaður sem og möguleikarnir. Hægt er að sækja efniviðinn beint út í náttúruna án mikils kostnaðar.Á dögunum var stofnuð Suðurnesjadeild Garðyrkjfélags Íslands með það að markmiði að vekja hjá fólki áhuga á garðrækt með því að stuðla að fræðslu og fjölbreyttni í plöntuvali. Fólki gefst einnig kostur á að deila með öðrum reynslu sinni af ræktunarstörfum. Garðyrkjufélag Íslands er móðurfélag okkar og mun þannig veita okkur brautargengi með beinni aðkomu. Sérstakur hnappur tileinkaður Suðurnesjadeildinni er að finna á heimasíðu Garðyrkjufélags Íslands.


Það er ánægjulegt að bærinn skuli hafa plægt upp gamalt svæði úti í Gróf fyrir íbúa Reykjanesbæjar. Önnur bæjarfélög eru einnig að hlúa að þegnum sínum á sama veg.
Það að rækta er sálarfróun og ef nokkurtíma var þörf á slíku er það nú.

Gangi ykkur vel.

Konráð Lúðvíksson, læknir.