26 pólitískar greinar í dag - kosningavakt á morgun

Það hefur verið líflegt í pósthólfinu hjá Víkurfréttum í dag og upp úr því hafa ratað 26 greinar í efnisflokkinn sem heldur utan um pólitískar greinar hér á vf.is.

Mikið framboð á pólitískum greinum í dag leiðir hins vegar af sér að fáir njóta þess að þeirra grein sé efst á síðunni nema kannski í fáeinar mínútur.

Sú nýbreytni var fyrir þessar sveitarstjórnarkosningar að engar aðsendar pólitískar greinar voru birtar í prentútgáfu Víkurfrétta, heldur var þeim öllum vísað inn á vefinn. Þess í stað tóku blaðamenn Víkurfrétta púlsinn á frambjóðendum í aðdraganda kosninga. Í síðustu viku voru viðtöl við alla leiðtoga framboða í Grindaví, Sandgerði, Garði og Vogum og í þessari viku voru svo viðtöl við oddvitana í Reykjanesbæ. Þeim viðtölum var fylgt eftir á vf.is með ítarlegum viðtölum í Sjónvarpi Víkurfrétta, sem er að fá gott áhorf á netinu.

Ástæða þess að engar framboðsgreinar eru í prentuðu útgáfunni eru fyrst og fremst af efnahagslegum ástæðum. Prentkostnaður hefur hækkað og ekki verjandi að leggja í aukinn kostnað á sama tíma og mjög hefur dregið úr auglýsingum.

Að loknum þessum kosningum munum við setjast niður og skoða næstu skref. Sérstakur kosningavefur verður settur upp fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar þar sem þess verður gætt að öll framboð hafi sama vægi í framsetningu á aðsendu efni.

Víkurfréttir munu standa kosningavakt á morgun, heimsækja alla kjörstaði og birta tölur og viðbrögð við þeim. Fylgist því áfram með Víkurfréttum á netinu, vf.is.