12 Góðar ástæður fyrir því að kjósa Framsókn

• Okkar stærsta mál fyrir þessar kosningar er aukið íbúalýðræði. Að íbúar geti kosið um stór mál. Einnig viljum við breyta reglum um bæjarstjórnarfundi að íbúar geti komið málum á dagskrá bæjarráðs eða bæjarstjórnar og haft þar málfrelsi og tillögurétt, en nú hafa íbúar einungis áheyrnarrétt. Okkur finnst mikilvægt að auka samvinnu í bæjarstjórn. Bæjarstjórn á að vinna saman eins og fjölskylda, þ.e. að málin séu leyst í sameiningu og hlustað sé á skoðanir allra. Einhliða ákvarðanataka er ekki góð.

• Frambjóðendur Framsóknar í Reykjanesbæ eru flestir nýir á þessum vettvangi. Við svöruðum kalli um endurnýjun og ákváðum að leggja okkar af mörkum til að bæta samfélagið okkar og koma með nýjar áherslur. Okkur finnst mikilvægt að bæjarfulltrúar setji sér siðareglur, þ.e. að þeir upplýsi um hagsmunatengsl sín.

• Hér eru tækifæri. Við munum beita okkur af fullum þunga fyrir því að atvinnuverkefni fari strax af stað. Atvinna eru mannréttindi.

• Við þurfum fleiri lækna og hjúkrunarfræðinga á svæðið. Við getum tryggt íbúum betri þjónustu með því að sveitarfélög á Suðurnesjum sameinist um rekstur HSS og geri þjónustusamning við ríkið. Þá gætu stjórnendur hér ráðstafað fjármagni þannig að það sé meira í takt við þarfir íbúa. Nauðsynlegt er að skurðstofur HSS verði opnaðar aftur.

• Við eigum frábæra skóla og þurfum að halda því þannig að innra starf þeirra bíði ekki hnekki. Við ætlum að verja skólana okkar af öllum mætti.

• Ljóst er að við þurfum að velta hverri krónu fyrir okkur og því viljum við ráða innri endurskoðanda sem fer nákvæmlega yfir útgjöld og hvort þau samræmist fjárhagsáætlun.

• Framsókn er grænn flokkur og við erum með fjölmörg græn mál á stefnuskránni, sem kosta lítið og eru því vel framkvæmanleg á kjörtímabilinu. Við viljum t.d. tengja nágrannasveitarfélögin og Leifsstöð saman með hjóla- og göngustígum. Gaman væri að rækta upp skóg ofan við Njarðvíkurnar og búa þar til skemmtilegt útivistarsvæði fyrir unga sem aldna. Við trúm því að metan sé framtíðin og höfum mikinn áhuga á að styðja við metanvæðingu hér í bæ með því að stuðla að stofnun fjölorkustöðvar. Þar yrði einnig hægt að kaupa vetni og rafmagn á ökutæki. Aðgengi að fjölorku yrði án efa mikil búbót fyrir íbúa.


Framsókn fyrir okkur öll. X-B
Silja Dögg Gunnarsdóttir, 2. Sæti Framsóknar í Reykjanesbæ